Skammlifað frí

Ég valdi greinileg kolvitlausan tíma til að hætta að blogga. Meðan plöntur landsins springa út í blóma springur veröldin í tætlur af geðveiki, orðaskaki og almennu kjaftæði. Mér er það lífsins ómögulegt að halda þetta út; ég verð að tjá mig! Fram þjáðir menn í þúsund löndum, heyrið rödd mína, því Corvus Nocturnus er stiginn á stokk á ný, þreyttari, pirraðri og kaffidrukknari en nokkru sinni fyrr! Eins og Fönix reis upp úr öskustónni hefur bloggari farið niður til Heljar, sigrað skrattann í rökræðum um skemmtanagildi Halldórs Ásgrímssonar og er nú snúinn aftur, skrúðbúinn í skarlatsklæðum með gyllta fjöður í purpuralitu pottloki sínu. Mun rödd mín berast um gjörvallan heiminn, þar sem ég stend á líki andskotans uppi á Skólavörðuholti, öskrandi af lífs- og sálarkröftum: „VENI, VIDI, VICI!“ **

Gærkvöldið
Í gær fórum við pabbi á Oedipus Rex í Háskólabíói. Skemmti ég mér konunglega, en pabbi hafði þó orð á því að bassasöngvarinn hefði verið ömurlegur. Þar vorum við sammála.
Eftir tónleikana lá leið okkar á McDonald’s, Skúla sjálfsagt til mikillar skelfingar, en hafa ber í huga að eftir sex ára búskap fjarri föður mínum ríkir enn hálfgerður helgarpabbafílíngur milli okkar. Pöntuðum við mat og fengum í hendur. Settumst við þvínæst við borð í miðjum veitingasalnum. Þegar við vorum rétt um bil hálfnaðir með matinn okkar var dyrunum hrundið upp á gátt og hátt í sextíu stelpur í einsleitum kjólum þustu inn með miklum látum. Svipurinn á pabba var jafnframt óborganlegur sem ólýsanlegur, og því verður ekki gerð tilraun til að lýsa honum hér. Stelpurnar fundu sér sæti hringinn í kringum okkur, og óðu uppi með skrækjum hlátrasköllum; við vorum umkringdir. „Gelgjur,“ útskýrði pabbi, svo glumdi í öllum salnum. Þögn skall á eins og lognið fyrir storminn. Einstaka „hnuss“ barst fyrir hamar vorann, steðja og ístað. Þögn. Þögnin skarst inn í hlustir okkar. Hún var óbærileg …
Öskrin skullu á eins og flóðbylgja bældra tilfinninga. Píkuskrækir fylltu vitund okkar, svo okkur var um megn, að tala hvor við annan. Flúðum við vettvang, hræddir, kaldir og blautir; hraktir og smánaðir. Lá leið okkar nú hvor í sína áttina; hvor til síns heima, og þar með lýkur frásögn þessari.

Að lokum í bili:
Þetta er eitt það fyndnasta sem ég hef séð í langan tíma. Ég held maður þurfi að vera nett klikkaður til að láta sér detta eitthvað svona í hug.

Þetta minnir mig svo á forseta vorn meðan hann sat enn á Alþingi.

———————————————–
**: Copyright Julius Gaius Caesar 49 BC

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *