Júróvisjónblogg

Þá er komið að því sem allir evrópubúar hafa beðið eftir: Júróvisjón. Í kvöld klukkan sjö munu allir evrópubúar (auk Ísraels og fleiri asíulanda sem einhverra hluta vegna fá að taka þátt í Júróvisjón) sitja heima með munninn fullan af kartöfluflögum og Vogaídýfu (svo ég alhæfi út frá eigin reynslu) horfandi á Júróvisjón. Það er að segja allir nema ég. Sjálfum finnst mér ótrúlegt að fólk geti haft gaman að þessari tónlist. Enn ótrúlegra finnst mér að fólk sjái ekki í gegnum sýndarmennskuna sem fylgir þessari keppni. Það má vissulega færa rök fyrir því að hallærisleikastuðullinn (sem fer úr öllu góðu hófi fram) geri keppnina skemmtilega, en fyrir okkur sem getum hvorki horft upp á hallæri né hlustað á Abba er þessi keppni eins mikil martröð og flestum finnst hún skemmtileg.

Til að forðast Júróvisjón þetta árið tók ég að mér að vinna í dag. Já, heyrið það! Ég legg mig virkilega fram við að komast undan þessu suði! En ekki nóg með það heldur á ég ennþá eftir að heyra framlag „okkar“ íslendinga í þessa keppni. Það hef ég gert með því að horfa ekki á sjónvarp (ég horfi hvort eð er aldrei á sjónvarp!) og hlusta einvörðungu á útvarp allra landsmanna þegar ég hef fundið löngun til að „opna fyrir útvarpið“ eins og amma mín kallar það (löngun sem ég finn sjaldan eða aldrei fyrir).

Ég hef þannig leitt þessa keppni algjörlega fram hjá mér í ár. Ég tók annars eftir því á blogginu hans Sverris Jakobssonar að hann lítur á finnska kolegga sína sem menningarsnobbara fyrir að vilja ekki horfa á Júróvisjón. Það gæti vel verið að téðir kollegar séu þannig „af guði gerðir“ en til að taka allan vafa af ætla ég að ítreka það hér að ég er ekki minnar skoðunar af menningarástæðum. Ég einfaldlega get ekki hlustað á svona tónlist. Ég heyri aðeins suð.

Annars, jú. Það er eitt sem ég þoli ekki við Júróvisjón, þó ég reyni að láta þessa keppni ekki fara neitt sérstaklega í taugarnar á mér, en það er þetta menningarmorð sem viðgengst. Þá meina ég t.d. lögin sem Spánn sendir frá sér, en þau byrja alltaf á alveg rosalega fallegu gítarintrói, eins og í spænskum ballöðum, en svo eyðileggja þeir alltaf lagið með einhverju júrótransi eða hvað maður vildi kalla það. Ég ítreka þó enn og aftur að ég er ekki minnar skoðunar vegna einhvers menningarsnobbs. Mér finnst þetta þó algjörlega óviðeigandi, en ég veit að spánverjar gera þetta hvort eð er, enda er „meinstrímið“ þar a.m.k. tíu árum á eftir okkar. Það hlustar enginn á júrópopp lengur. Nema öll evrópa. Ég er sá eini sem er eðlilegur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *