Illionskviða III

Varúð! Þið sem hvorki hafið séð myndina né lesið söguna ættuð ekki að lesa þessa færslu.

Í stað þess að tala um það sem vel fór í myndinni ætla ég að tala um alla vitleysuna sem hefði auðveldlega mátt forðast. Mér er það vel skiljanlegt að til að gera myndir á borð við t.d. Hringadróttinssögu þarf að breyta ýmsu og sleppa öðru. Það er ekki tilfellið hér. Sumar persónur sem lifðu af í Illionskviðu Hómers dóu í myndinni og sumar persónur dóu á vitlausum stöðum. Í myndinni berst París við Menelás og bíður lægri hlut. Hektor snýst honum til varnar og drepur Menelás. Þetta er rangt. París og Menelás berjast aldrei í kviðunni. Hektor og Ajant berjast einnig í kviðunni en það endar með jafntefli. Í myndinni drepur Hektor Ajant, en hann átti aldrei að deyja. Akkiles drepst á kolröngum stað og á algjörlega röngum forsendum. Ekki nóg með að hann fái eitraða ör gegnum hælinn sem, kviðunni samkvæmt verður hans banabein, heldur fær hann um fimm aðrar í bringuna í myndinni. Þetta er rugl. Í myndinni sést hann einnig príla út um Trójuhestinn, en hann átti að vera dauður áður en hesturinn var gerður. Agamemnon deyr líka í myndinni. Það finnst mér fyndið vegna þess að hann kemur einnig fyrir í Ódysseifskviðu. Hér með hefur Wolfgang Petersen eyðilagt alla möguleika á að kvikmynda framhaldið, eingöngu til að gera Agamemnon að vonda karlinum. Vandamálið við Hómerskviðurnar er að það er enginn vondur karl, en Wolfgang virðist halda að ekki sé hægt að gera kvikmynd án þess að hafa vondan karl. Að sjálfsögðu þurfti Hollywood líka að ýkja upp ástarsamband Akkilesar við Brísis þó ég fari ekki fleiri orðum um það.
Þrætueplið vantaði og það er synd. Það var náttúrulega fáránlegt að klippa guðina algjörlega út úr myndinni og þá staðreynd að móðir Akkilesar var gyðja. Ástæðan fyrir ást Helenu á fíflinu honum Parísi verður því að liggja á milli hluta í myndinni. Í raunveruleikanum gæti enginn elskað hann. Orlando Bloom fer raunar þannig með hlutverkið að París verður óöruggur og brjóstumkennanlegur. París á samúð áhorfenda og þannig gengur það upp í myndinni.
Brad Pitt var stórgóður Akkiles. Margir eru mér ósammála um þetta en hann náði alveg að skapa Akkiles eins og ég ímyndaði mér hann. Í mínum huga á Akkiles hovrki að vera stór né massaður. Hann hefur styrk sinn frá guðunum og aukinheldur er hann ódauðlegur. Hann þarf ekki vöðva í þessum heimi þegar hann hefur vernd guðanna. Brad Pitt náði einnig að túlka ósvífnina sem einkennir Akkiles, íþróttamannshrokann sem einkennir þá sem eru bestir, eins og Kjartan í Laxdælu, og sanngirni í viðskiptum sínum við Príam konung. Mér fannst hann góður.
Sean Bean var kjörinn Ódysseifur. Hann fúnkeraði alveg fyrir mig en ég nenni ekki að fara að útlista það eitthvað nánar.
Brian Cox, sem lék Agamemnon, var feitur. Að mínu mati á Agamemnon ekki að vera feitur.

Þetta er hér um bil það eina sem ég nenni að skrifa um Troy að svo stöddu. Handritshöfundurinn á barsmíðar skyldar fyrir að geta ekki haft einföldustu atriði rétt. Svona er það víst þegar Hollywood á í hlut. Þeir breyta staðreyndum til að gera myndir betri, nema í þessu tilviki (og svo mörgum öðrum) verður myndin verri fyrir vikið og ég krefst þess að gerð verði önnur mynd. Ég vil hafa mín atriði á hreinu og það er lágmark að framleiðendur sögulegra kvikmynda geri það líka. Þessi mynd er skandall. Hún er raunar alveg þess virði að sjá (á vídjóspólu) en ég mun aldrei geta verið sáttur við hana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *