Lífið

Hvers vegna er lífið eins og það er? Sumir trúa á örlög, að þú hafir ekkert val um hvað þú gerir, því allt sé það fyrirfram ákveðið. Það er jafn þægilegt að trúa á örlög eins og það er svekkjandi: Það var fyrirfram ákveðið af einhverjum æðri mætti að þú værir þetta fokköpp sem þú ert. Enn aðrir trúa á að hver sé sinnar gæfu smiður, að allt sem þú gerir sé mótað af eigin ákvörðunum og verðleikum. Það er álíka svekkjandi, að vita það að hvað sem þú gerir fer allt í handaskolum. Maður sem hugsar þannig hlýtur á endanum að fara að trúa því að hann sé svona óverðugur, að hann geti ekki með nokkru móti, sama hvað hann reynir, fengið neitt til að ganga öðruvísi en á afturfótunum.
Sjálfur neita ég að skilgreina mig sem hugsuð af einhverri ákveðinni tegund. Hlutirnir virðast alltaf ganga sinn vanagang, hvort sem ég á einhverja hlutdeild að máli eður ei. Hvað hef ég gert fyrir heiminn sem gerir hann að betri stað? Væri heimurinn eins án mín? Óneitanlega, hugsa margir svona, þegar þeim finnst sem heimurinn geti ekki verið kaldari. Það finnst mörgum, en ekki mér.
Sama hvað á dynur verður maður að halda áfram að feta slóðann, hvort sem hann er opinn og greiður eða krókóttur og hættulegur. Lífið er, eins og hver sníður á sjálfan sig. Við erum vorir eigin dæmendur, hvort okkur gengur vel eða illa í lífinu. Og nú, kæru lesendur, er ég kominn í þversögn og sjálfheldu.
Ósjaldan væli ég um ömurleika eigin tilveru og finnst allt ganga í handaskolum. Stundum brotna ég niður þegar ég heyri um barnadauða, því hvað er skelfilegra en að glata lífinu, rétt eftir að manni hefir hlotnast það? Ef það er svo hræðilegt að deyja, getur það ekki verið nándar eins hræðilegt að lifa. Það er eitthvað sem keyrir mig áfram á erfiðum tímum, því hvað sem gerist, er ég hér, reiðubúinn að takast á við það. Það er um að gera, að reyna að vera sterkur, hvað sem bjátar á.
Við hvert bakslag byggist maður upp ónæmi fyrir þeim, segja sumir. Það er ekki satt. Það er aldrei hægt að baktryggja sig fyrir skakkaföllum. En nú er mál til komið, að ég reyni að herða mig upp og halda áfram.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *