109109231067040212

Ég biðst innilegrar afsökunar á bloggtíðni dagsins. Ég virðist vera háður blogginu og, þegar ég sé fram á bloggleysi næstu daga, blogga ég á fullu spítti – eins og maður sem vill hætta að reykja og reykir heilan pakka á kortéri í von um að það haldi honum gangandi í nokkurn tíma. Slíkt virkar að sjálfsögðu ekki.

Til eru menn sem hætta að blogga í hreinni tilraun til ósvífni og gera lítið úr fíkn annarra í „efnið“. Þetta kalla ég „Sick boy einkenni“ og vitna þá í Trainspotting.

Jæa, nóg komið af þessu rugli. Senn held ég út í rigninguna að hitta uppáhaldsþjónustufulltrúann minn í bankanum og gjaldkerann, sem ég þekki þó ekki eins vel, enda hraðbankar nær algjörlega búnir að leysa þá af hólmi. Ef hraðbankar byðu upp á erlendan gjaldmiðil auk hins hérlenska þyrfti ég aldrei að tala við gjaldkera aftur.

Og meðan ég man! Ég á enn eftir að pakka.

109109125396276235

Menn hafa nú í nokkurn tíma borið það ofan í mig að ég þurfi að skipuleggja fríið mitt mjög vel, þ.m.t. ferðafélagi minn. Er því ekki að skipta. Það felst vinna í skipulagni og mér kæmi ekki til hugar að eyðileggja fríið mitt og skipuleggja það. Aukinheldur er skemmtilegra að ákveða allt þegar að því kemur, eða jafnvel að ákveða ekki neitt, bara gera það. Skipulagni má fara andskotans til (og koma aftur þegar ég byrja í skólanum!).

Ónefndur vinnufélagi er bloggari og beini ég til hans þeirri forláta bón að hann lagfæri athugasemdakerfi sitt (takið eftir íslenskuvæðingunni? Ekkert kommentakjaftæði lengur!), enda er hann engu bættari án athugasemda minna, sem þykja með eindæmum skemmtilegar, hnitmiðaðar og gagnlegar. Trúið mér ekki? Spyrjið mig!

109108975741450583

Heimildarmaðurinn Deep Throat hugsanlega látinn
„Ein helsta ráðgáta bandarískrar stjórnmálasögu kann nú að vera leyst þar sem talið er að helsti heimildarmaður blaðamannanna sem flettu ofan af Watergate málinu, hinn svokallaði Deep Throat, hafi fundist látinn á hótelherbergi í Biloxi, í Mississippi fylki í Bandaríkjunum, segir í frétt breska dagblaðsins Guardian“.

Þetta mun vera sami maður og rætt er um hér.

109108890435995664

Það má furðu sæta að ég hafi vaknað í morgun. Það má raunar einnig furðu sæta hvað íslenskir glæpamenn eru jafnan fljótir að játa á sig verknaðinn, jafnvel þegar engar haldbærar sannanir liggja fyrir.

Á meðan raunverulegir glæpamenn bíða dóms og laga, eru erlend stjórnvöld iðin við að hrella saklausa menn sem helst þarfnast geðhjálpar fremur en fangelsisvistar.

Þeir sem eiga eftir að skrifa undir plagg þetta skulu gera það.

Íslendingurinn er hættur í Tý meðan heimurinn stendur á öndinni; aldrei áður hefur einn maður sést glutra frama sínum niður á svo skömmum tíma. Ekki má þó áfellast Ottó, enda langtum meira starfsöryggi að finna í Mývatnssveitinni. Ekki greinir Mogginn frá því hvernig Ottó hyggst framfleyta konu sinni og soltnum börnum, en áreiðanlega finnur hann leið, meðan við – hinir dauðlegu – fylgjumst spennt með heima úr stofu …

Endilega skoðið þetta. Þetta er eitt það fyndnasta sem ég hef á ævi minni séð, þægilega fyrir komið á minni eigin síðu, ykkur til hæginda.

Fleira hef ég ekki að segja að sinni. Kannski fylgja fleiri færslur áður en ég fer, en það læt ég liggja á milli hluta hvort úr verði.