Alveg er ég gapandi bit yfir fjölda réttra svara við getrauninni – þau eru engin. Og mér sem fannst þetta í auðveldari kantinum. Þeir sem gerðu tilraun til svara flöskuðu á því að ég spurði aldrei um fótboltalið eða landslið eða neitt í líkingunni. Ég spurði hvaða þjóð er best í fótbolta og eina rétta svarið við því er engin. Það er ógjörningur að komast að því vegna fjölda fólks í hverju landi fyrir sig, jafnvel á Íslandi, því fólk myndi deyja og annað fæðast í staðinn meðan á athuguninni stæði.
Landslið hverrar þjóðar fyrir sig er enginn mælikvarði á fótboltagetu þjóðarinnar allrar. Hefði ég spurt um landslið aftur á móti, hefði bróðir minn einn svarenda haft vinninginn.
Munu sjálfsagt einhverjir reyna að nota það gegn mér að yfirleitt er talað um hvaða þjóðir eru bestar í fótbolta. Það sýnir bara hvurslags vitleysur geta leynst í málinu, að talað sé um þjóðir þegar ellefu manna lið á í hlut.