109407786440730610

Mér brá allverulega þegar ég rak augun í eftirfarandi fyrirsögn: „Axarmaðurinn yfirheyrður í Hafnarfirði“. Jahá! Ekki hafði ég frétt af þessum „axarmanni“, en ályktaði þó strax, að hér væri um að ræða einhvers konar mann á borð við Son Sáms, Kviðristu Kobba (hver þýðir þessi nöfn!?) og Axlar-Björn. Svo gleymdi ég máli þessu og hélt áfram að lesa mig niður hina nýju og endurbættu heimasíðu Morgunblaðsins. Allt þar til þessari frétt ber fyrir augu mín: „Hjó mann ítrekað í höfuðið með öxi“ (!). Helstu atriði fréttarinnar:

„Maður kom inn á veitingahúsið A. Hansen á Vesturgötu í Hafnarfirði um hálfellefuleytið í gærkvöldi og hjó mann sem var á veitingastaðnum ítrekað í höfuðið með öxi, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Hafnarfirði …“
„… Maðurinn sem sleginn var í höfuðið var fluttur á slysadeild. Hann höfuðkúpubrotnaði og fékk slæman skurð í andlitið.

Þetta segir mér ýmislegt. Sem dæmi um þann lærdóm sem draga má af þessari blaðagrein, er að ef þú leggur til manns með öxi, er líklegt að lögreglan muni skipta sér af. Einnig má sjá, ef glöggt er að gætt, að áverkar mannsins af árásinni – eins fólskuleg og hún nú var – eru hreint ekki miklir. Get ég nú með fullri vissu dregið af öll tvímæli um að hetjur Íslendingasagnnanna hafi ekki undir nokkrum kringumstæðum getað höggvið of mönnum hendur, fætur, höfuð, hálfan skrokkinn o.s.frv. í einu höggi. Dreg ég ályktun þessa af tvennu:

1.Ekki voru allir Íslendingar svo lánssamir að eiga norsk sverð, en munu hin íslensku hafa verið gerð úr grjóti og mýrarrauða (eða einhverjum fjandanum sem hvergi á heima í eðlilegum eggvopnum).

2. „Axarmaður“ þessi mun beitt hafa öxi af fremur nýlegri sort, af eldi og brennisteini gjörva, hamraða á steðja Surts og herta í logum Múspells af sjálfum Tý; brýnda með brýni dauðans (og beitt til þess tækni sem aðeins Mímir til þekkir) og að lokum send með Naglfari til Íslands og seld í Byko á kr. 390 ísl. Það er einfaldlega ekki séns að öxi sú, er hér ég lýsi, bíti verr eða jafnvel og draslið í Norden i den, ekki séns! Er því augljóst að téður „axarmaður“ hefur fengið ýmsu meira framgengt en hann ætlaði sér með verknaði sínum.

Og þar höfum við það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *