109924417911104011

Mikið hefur verið dekrað við mig að undanförnu. Í gær fékk ég máltíð konunga: Rauðvínsleginn hamborgarahrygg með brúnuðum kartöflum, gulum baunum og brúnni sósu, og rauðvín var drukkið með. Á eftir er mér boðið í snittur, bjór og snafs, og ekki er það nú verra.

Svo er bókaskápurinn á leiðinni að fitna með laglegri og ómissandi viðbót við þegar ágætt safn mitt, auk þess að til stendur að versla nýtt rúm, baki mínu til mikils léttis. Það kemur þó ekki fyrr en ég hef tekið til hendinni.

Í gærkvöldi hitti ég gamlan kennara minn. Hann var mjög ölvaður og formælti skólastjórninni og ég veit ekki hvað. Svo sagðist hann hafa verið strangur kennari, en það hafi bara verið til að herða okkur svo við gætum orðið „best í heimi“. Ekki skal furða að nokkuð hefur dregið yfir þá glansmynd sem ég hafði af honum sem kennara. Tja, það var nú kannski aldrei glansmynd. Og í raun var hann aldrei góður kennari. En skemmtilegur var hann þó.

109915086695652096

„Það er harmleikur þegar einn maður deyr, en þegar milljón manns deyja er það tölfræði“ er einhver sú mest pirrandi og ofnotaða tilvitnun sem ég veit um. Og ekki er nóg um að allir sextán ára og eldri þylji þetta upp í hvívetna eins og þeir séu klárasti maður á jarðríki, heldur er það hvernig þeir segja þetta, með gáfumannslegan opinberunarsvip að hætti Tolstoj.

Þegar fólk hefur þessi orð Stalíns eftir í samræðum við mig heyri ég ekkert annað en dauft „Blöblöblö blöblöblöblöblö.“ Svo glottir viðkomandi hróðugur, eins og ég hafi aldrei heyrt þetta áður.

109898942805743161

Í dag fékk ég Politik: magt og indflydelse i det politiske system að gjöf og þakka ég fyrir hana.

Einu verkefni fer senn að ljúka og taka þá önnur við; bæði ritgerða- og greinaskrif. Vonandi verða þau verkefni jafn skemmtileg eins og þau eru krefjandi.

Þetta eru alvarlegar ásakanir og nánast örugglega ósannar. Bandaríkin sætta sig ekki við að hafa gert mistök og hafa nú fundið blóraböggul. Mjög hættulegan blóraböggul.

109897395837659292

Ætli undirritaður hafi ekki verið valinn í spurningalið bekkjarins fyrir innanskólakeppnina, ásamt þeim Skúla og Bjössa. Mér þykir bekkurinn ætla sér mikils. Það geri ég hins vegar ekki. Þvert á móti hengi ég mig í hæsta gálga ef ég hlýt jafn smánarlega útreið eins og í Njálukeppninni, þar sem mér var teflt fram sem einhverju „leynivopni“ sem stóð svo engan veginn undir nafni. Djúsleiðindi sem það voru.

Ég þarf þó sjálfsagt ekki að hafa miklar áhyggjur af að finna mér gálga. Ég er þess fullviss að félagar mínir verði mér þar til fulltingis. En þeir geta aðallega kennt sjálfum sér um.

Þessa dagana gengur áróður skólagöbbelsanna um útskriftarferð til Mexíkó yfir nemendur eins og eldgos yfir Plíníus. Ekki að ég sé hugmyndunum mótfallinn. Þvert á móti. Eftir að hafa hlýtt á boðskap áróðursmeistaranna get ég ekki annað sagt en að ég sé hæstánægður með valið. Eins og ég hef nú aldrei verið hrifinn af Mexíkó!

En nú er það klipparinn, áður en ég tek endanlega ásjónu Dýrsins.

109896254052372191

Ekki get ég tekið undir að tunglmyrkvinn hafi sést vel. Tunglið hvarf algjörlega sjónum þegar um 3/4 þess voru myrkvaðir. Ollu því skýin, sem grúfðu yfir öllu.
Þetta eru hræðilegar fréttir. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að drengurinn hafi allt í einu snappað án þess að nokkuð lægi að baki. En eftir liggur heil fjölskylda í valnum, hvort sem var, og ekkert við því að gera. Það verður ekki óhugnanlegra en þetta.
Þetta er líka slæmt, en þó ekki á sama hátt. En sú tilhugsun, að íslenskir ófriðargæsluliðar verði á staðnum, er vægast sagt ekki góð, í ljósi nýliðinna atburða í Kabúl.

RSS

RSS fréttaveitan sem ég bjó til með hjálp Mikka vefs birtir ekki færslurnar mínar. Það er vegna þess að slóðin á síðuna mína birtist sem http://www.mikkivefur.is/rss/www.arngrimurv.blogspot.com – sem er bull. Og það er hvorki hægt að laga það né skrá nýja veitu fyrir bloggið mitt! Ég verð að segja að mér er ekki skemmt.