109897395837659292

Ætli undirritaður hafi ekki verið valinn í spurningalið bekkjarins fyrir innanskólakeppnina, ásamt þeim Skúla og Bjössa. Mér þykir bekkurinn ætla sér mikils. Það geri ég hins vegar ekki. Þvert á móti hengi ég mig í hæsta gálga ef ég hlýt jafn smánarlega útreið eins og í Njálukeppninni, þar sem mér var teflt fram sem einhverju „leynivopni“ sem stóð svo engan veginn undir nafni. Djúsleiðindi sem það voru.

Ég þarf þó sjálfsagt ekki að hafa miklar áhyggjur af að finna mér gálga. Ég er þess fullviss að félagar mínir verði mér þar til fulltingis. En þeir geta aðallega kennt sjálfum sér um.

Þessa dagana gengur áróður skólagöbbelsanna um útskriftarferð til Mexíkó yfir nemendur eins og eldgos yfir Plíníus. Ekki að ég sé hugmyndunum mótfallinn. Þvert á móti. Eftir að hafa hlýtt á boðskap áróðursmeistaranna get ég ekki annað sagt en að ég sé hæstánægður með valið. Eins og ég hef nú aldrei verið hrifinn af Mexíkó!

En nú er það klipparinn, áður en ég tek endanlega ásjónu Dýrsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *