Jólasveinar og stjúpmæður

Er ekki æðsta (og dramatískasta, svo ekki sé minnst á skáldlegasta) hlutverk kennara að sporna við og uppræta fáfræði í heiminum? Ég lít svo á og það væri gaman að sjá barnaskólakennara segja börnunum að jólasveinnin sé ekki til. Vandamálið er þó í senn siðferðislegs og glæpsamlegs eðlis. Það er vegna þess, að siðferðiskennd almennings er svo bjöguð að kennari sem álítur það siðferðislega rangt að ljúga að börnum gerir það samt, vegna þess einfaldlega að foreldrar myndu veitast að honum fyrir að segja sannleikann. Merkilegt mál raunar, að foreldrar kjósi að fylla börnin sín ranghugmyndum. Aldrei hef ég fengið sannfærandi réttlætingu á því.

Börn eru merkileg og ekki ber að vanmeta þau á nokkurn hátt – þá sérstaklega ekki vitsmunalega. Mér finnst rangt að fresta eðlilegum þroska barna með því að gefa þeim ranga heimsmynd. Það er mín hugmynd og ég stend við hana. Líklegast lendi ég milli steins og sleggju ef ég eignast börn – steinninn verandi ríkjandi hugmyndir um barnauppeldi með jólasveinum og sleggjan þá verandi konan mín – þar sem ég myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum halda því fram við barnið mitt að jólasveinninn sé til. Hvaða tilgangi þjóna slíkar lygar þegar allt kemur til alls? Er þetta tilraun til að fegra heiminn fyrir börnum, að einhverjir síðskeggjaðir karlar með skotthúfur troði hlutum ofan í skóna þeirra?

Illmenni Grimmsævintýranna eru oftast, ef ekki alltaf, konur. Það þykir mér merkilegt. Það segir líka ýmislegt að þegar ég var barn var ég logandi hræddur við allar stjúpmæður og vorkenndi hverjum sem hafði slík illmenni inni á heimilinu.

110018223288240017

Leiðréttist hérmeð færsla mín um x-kynslóðina. Fólk fætt á árunum 1964-1977 telst til x-kynslóðarinnar, en við, sem fædd erum 1979-1994, teljumst til y-kynslóðarinnar. Þetta hafði ekki hvarflað að mér og ég þakka Elíasi leiðréttinguna.

Legg samt til að x-ið verði fellt úr málinu.

Nú er hinsvegar að andmæla samráði félaganna um að kommentéra allir á sama tíma.

Þorkell:
1. Þú röflar greinilega ekki nógu mikið, fyrst ég röfla meira en þú.
2. Þú getur ekki gert rss-fréttaveitu nema þú skiptir um bloggkerfi, eins og ég hef raunar áður sagt þér. Mæli þá helst með Blogger eða Movable Type. Hið síðarnefnda kostar að ég held.
3. Þú ert ósvífinn.

Bjössi:
Ég röfla eins og mér sýnist.

Skúli:
Skyr er ekki gott.

110018036388615001

Mér hefur alltaf þótt asnalegt þegar talað er um unglinga sem x-kynslóðina. Það er nóg að vera unglingur til að teljast til x-kynslóðarinnar og var ég sjálfur eitt sinn í þeirra hópi. En þessi „kynslóð“ á ekki rétt á sér – ekki verandi nein tiltekin kynslóð.

Og hvað er eiginlega málið með þessa skilyrðislausu dýrkun á bókstafnum x? Ég er orðinn svo þreyttur á hvað heimurinn er orðinn x-treme að nú legg ég til að x verði fellt úr íslensku og tekinn verði upp linmæltur ks-framburður í staðinn; buxur verði bugsur og kex verði kegs.

Og ef þið finnið ykkur knúin til að tala um unglinga sem einhverja spes kynslóð, talið þá um hana sem egs-kynslóðina.

Jafnvel mætti athuga að taka aftur upp zetuna góðu. Hún er a.m.k. fallegri en þetta x!

110016047081179737

Arafat er dáinn. Fyrst núna verður ástandið slæmt í Palestínu.
Ég gerði tilraun til að horfa á helvítis svikahrappinn hann Þórhall miðil í gærkvöldi en fylltist of miklum viðbjóði.
Þetta er ekki fyndið.
Betur má ef duga skal. Ég veit um þónokkra sem ættu fyrir lifandis löngu að hafa sagt af sér.
Egill Helgason eyðir miklu púðri í að spekúlera um hvers vegna Hillary Rodham Clinton getur ekki orðið forseti Bandaríkjanna 2008. Útskýringin er samt miklu einfaldari en hann lætur vera: Hún er kona. Í Bandaríkjunum geta konur, litaðir, samkynhneigðir og trúleysingjar ekki orðið forsetar.