Jólasveinar og stjúpmæður

Er ekki æðsta (og dramatískasta, svo ekki sé minnst á skáldlegasta) hlutverk kennara að sporna við og uppræta fáfræði í heiminum? Ég lít svo á og það væri gaman að sjá barnaskólakennara segja börnunum að jólasveinnin sé ekki til. Vandamálið er þó í senn siðferðislegs og glæpsamlegs eðlis. Það er vegna þess, að siðferðiskennd almennings er svo bjöguð að kennari sem álítur það siðferðislega rangt að ljúga að börnum gerir það samt, vegna þess einfaldlega að foreldrar myndu veitast að honum fyrir að segja sannleikann. Merkilegt mál raunar, að foreldrar kjósi að fylla börnin sín ranghugmyndum. Aldrei hef ég fengið sannfærandi réttlætingu á því.

Börn eru merkileg og ekki ber að vanmeta þau á nokkurn hátt – þá sérstaklega ekki vitsmunalega. Mér finnst rangt að fresta eðlilegum þroska barna með því að gefa þeim ranga heimsmynd. Það er mín hugmynd og ég stend við hana. Líklegast lendi ég milli steins og sleggju ef ég eignast börn – steinninn verandi ríkjandi hugmyndir um barnauppeldi með jólasveinum og sleggjan þá verandi konan mín – þar sem ég myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum halda því fram við barnið mitt að jólasveinninn sé til. Hvaða tilgangi þjóna slíkar lygar þegar allt kemur til alls? Er þetta tilraun til að fegra heiminn fyrir börnum, að einhverjir síðskeggjaðir karlar með skotthúfur troði hlutum ofan í skóna þeirra?

Illmenni Grimmsævintýranna eru oftast, ef ekki alltaf, konur. Það þykir mér merkilegt. Það segir líka ýmislegt að þegar ég var barn var ég logandi hræddur við allar stjúpmæður og vorkenndi hverjum sem hafði slík illmenni inni á heimilinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *