Samræður um trúarbrögðin o.fl.

Ekki skil ég hvernig fólk nennir að standa í rifrildum um tilvist guðs. Þegar einhver tilkynnir að guð sé til segi ég ekki neitt. Að sama skapi finnst mér að fólk eigi að virða það við mig þegar ég segi að guð sé ekki til. Það er kalt mat mitt á öllum trúarbrögðum að þau séu bull. Skoðun mín á miðstýringu trúarbragða er svo ekki prenthæf. En ég á ekki að þurfa að verja þessa skoðun mína fremur en trúmenn eiga að þurfa að verja sína. Rökræður um trúarbrögðin hafa aldrei skilað neinu.

Mér finnst leiðinlegt að meginþorri þeirra bóka sem ég mest þrái virðast með öllu ófáanlegar. Hvers vegna eru helstu bókmenntaverk sem birst hafa á íslenskri tungu ekki endurútgefin á tíu-fimmtán ára fresti? Það er eins og bækur Halldórs Laxness sé það eina sem fólki er bjóðandi af þeim meistaraverkum sem skrifuð voru fyrir 1950. Hvar eru Bör Börsson og Morkinskinna? Hvers vegna eru Góði dátinn og Ódysseifskviða Sveinbjarnar Egils aðeins fáanlegar í grútljótum kiljum?
Þegar ég kaupi bækur vil ég hafa þær innbundnar. Ég kaupi ekki kiljur nema bókin hafi og muni eingöngu koma út í kiljuformi. Mig vantar Ofvitann eftir Þórberg en ég kaupi hana ekki vegna þess að ég finn hana ekki innbundna. Ég á flestar hinar bækurnar hans innbundnar í útgáfu Máls og menningar frá 1974 og það kemur ekki til greina að kaupa Ofvitann í annarri útgáfu.

Svo hljóðar hið heilaga orð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *