110253863246675950

Möttuls saga er ótrúlega karlrembuleg. Það þarf þó ekki að koma á óvart, ef miðað er við hvenær hún var skrifuð.

Hmm. Hversu margir lesenda minna ætli hafi skrifað hvenar sem barn? Sjálfur vissi ég frá upphafi hvernig það var skrifað, en þrjóskaðist við. Enda var kennarinn minn á fyrsta skólaári fífl og ég hef aldrei gert mér far um að þóknast fíflum. Og ég hef alla tíð síðan verið mjög þrjóskur (ef einhver málfræðifasisti vill tjá sig um að ég hefji setningu á samtengingu má sá vita að ég skrifaði bókina um málfræðifasisma. Fæst í öllum betri bókabúðum (hvaða búðir eru það?)).

Er það drambsemi í mér að þykjast ekki þurfa að læra fyrir prófið á morgun? Málshátturinn um að dramb sé falli næst er nokkuð spúkí í því sammenhæng. Þó meira spúkí ef ég væri ekki meistari í faginu.

Einkunnaspá III: Íslenska

9+. Ég er bestur. Þó var ég ekki iðinn við lesturinn, fremur en fyrri daginn. Sem endurspeglar aftur að Laó Tse bloggsins, er þverfaglegur meistari – spekingur allra fræða x.o.

Í dag á afmæli Þórður Örn Arnarson, bróðir minn, og er hann 24 ára gamall í dag Hlýtur hann hérmeð hamingjuóskir mínar, jafnt sem hryggðaróskir, enda hefur hann aldrei verið feitari. Sem veit ekki á gott, þar sem bráðum fer í hönd tími mikillar átu.

Komið hefur í ljós hvert samhengi lagsins „Nei, nei, ekki um jólin“ er. Má af því ljóst vera að lagið er diss á nútímalifnaðarhætti, en jólin sé eina hvíldin frá amstri hversdagsins. Þess vegna spyr söngvari hvers vegna jólin séu ekki „sérhvern dag, sérhvert andartak, eins og fallegt lag“. Enn vantar útskýringu á hvers vegna hann telur að falleg lög séu sérhvern dag og sérhvert andartak, og hvar textahöfundur lærði setningarfræði.

Bendi einnig á jólalagablogg Pullu, þar sem svipt er hulunni af bragsnilld þess er orti um Einiberjarunnann, sem frægt er orðið. Ljóst er orðið að í þann tíma er lagið fjallar um hefur tekið sex daga að þvo þvott, en sjöunda dag hvern var gengið um kirkjugólf, líkt og þegar guð skóp heiminn. Mun þetta vera yfirfærð merking, að sex daga tekur að skapa manninn (fötin skapa manninn, ergó enginn maður er án fata, ergó fötin þurfa að vera tipptopp til að maðurinn sé það, ergó það þarf að þvo fötin) en sjöunda daginn er maðurinn tilbúinn og getur spígsporað kirkja á milli. Tengingin á milli þvottarins og runnans dylst mér enn. Kannski runninn tákni laufið, sem maðurinn bar í klofi sér, er hann uppgötvaði og undraðist eigin nekt?
Kannski textahöfundur Einiberjarunnans sé færasta myndlíkingaskáld Íslands fyrr og síðar!

Lúðvík sem formann!

„… Ég hef ávallt litið svo til, að Lúðvík Bergvinsson væri efni í einn af helstu forystumönnum Samfylkingarinnar. Til þess hefur hann alla burði. Nú ríður á að við Samfylkingarmenn teflum fram sókndjörfum foringja í okkar nýja kjördæmi, því nú er sögulegt tækifæri til þess að vinna stórsigur. Reynslan sýnir að það er ekki sama hver leiðir listann við aðstæður sem þessar, en ég fullyrði að Lúðvík sé réttur maður til þess að fara fyrir öflugum og samhentum lista og það sem meira er: að hafa sigur í kosningum“. – Tekið af Bergmál.is

Við Skúli vorum einmitt að hlæja að þeirri tilhugsun áðan, að vera með skipulagðan áróður fyrir því, að Lúðvík Bergvinsson yrði formaður Samfylkingarinnar. Það fannst okkur fyndið. Það finnst þeim sem þetta skrifaði ekki.