Einkunnaspá V: Mannkynssaga

Kraftur vitneskju minnar fór sem stormsveipur um skólastofuna og hefur slíkur kraftur ekki sést síðan Krústsjov buffaði púltið með skó sínum. Spáin fyrir þetta próf er 9. Ætli allar þessar spár mínar standist?

En að öðru. Það er nefnilega kominn tími til að skilgreina mig örlítið.

Ég er semí-hreintungufasisti, jafnt í íslensku sem öðrum tungumálum, en ég geri greinarmun á að kunna ekki móðurmálið og að sletta í stílskyni. Mér þykir það slæmt þegar tungumál eins og t.d. danska nota orð eins og „firetruck“ um fyrirbæri sem allt eins mætti kalla „brændebil“. Hins vegar geta erlend tungumál haft jákvæð áhrif á tungumál, sé slangrinu beitt á vissan hátt. Þannig hvet ég t.d. eindregið til að fólk sletti sem mest til að auðkenna stílbragðið, s.s. með kansellístílnum, en ég formæli notkun á tilefnislausu slangri ef það er úr stíl við samhengið. Ennfremur þykir mér óafsakandi þegar fólk yfir sjálfræðisaldri (og jafnvel yngra) gerir ekki greinarmun á þessu eða kann ekki íslenskt mál betur en svo, að það kann ekki aðra leið til tjáningar en með notkun slangurs.
Undantekningar á þessu er t.d. fólk af erlendum uppruna, hvort sem það kann eitthvað eða ekkert fyrir sér í þjóðtungu þess lands sem það býr í. Fólk má tala hvaða tungumál sem því þóknast og nýbúum er frjálst valið. Ef erlendir innflytjendur bera sig eftir að læra þjóðtunguna er það hið besta mál en ekki er hægt að ætlast til að þeir nemi hana algjörlega. Hins vegar er vel hægt að ætlast til, að þeir sem gjarnan eru titlaðir íslendingar á kostnað nýbúa, tali góða íslensku, og það sama á við í öllum öðrum löndum.
Ég tel að vernda beri þjóðtungur allra landa. Ég vil eina tungu eða fleiri á hvern – ekki eina fyrir alla. Ég vil að sem flest þjóðarbrot geti búið saman og þróað menningu hverrar þjóðar fyrir sig í sameiningu, með tungum sínum og siðum, en ekki einhlítt enskusamfélag þar sem allt er staðlað og ófjölbreytt. Tungumálin eru aðeins eitt fyrirbæri sem stuðlar að fjölbreytni milli samfélaga og því er mikilvægt að viðhalda þeim.

En nú læt ég staðar numið og leyfi lesendum mínum að drulla algjörlega yfir mig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *