Keyptu þér gleðileg jól!

Senn nálgast jólin. Orðið á götunni er að meira að segja sagnfræðingar deili um hvort kom á undan, auglýsingin eða jólin, en menn hafa fljótlega gleymt sér í neysluhyggjubrjálæðinu, svo jafnvel elstu heimildir stangast á. Leiddar hafa verið líkur að því að Jesús hafi í raun verið fyrsta fyrirtækisímyndin, eins og Michael Jordan var fyrir íþróttafatnað, og að sala á helgimyndum hafi rokið upp úr öllu valdi á hans dögum, valdandi gríðarlegri hækkun á vísitölu neysluverðs, hárri verðbólgu og mikilli misskiptingu fjármagns. Þannig hafi menn strax verið búnir að undirbúa markaðssetningu jólanna áður en þau urðu til. Umboðsaðili jólanna hefur frá upphafi verið kirkjan, en nú á dögum eru þau seld á niðurgreiddu verði í hinum ólíkustu verslunum, gerandi það þægilegra, fljótlegra og billegra fyrir fjöldann að njóta þeirra. Unnið er nú að framleiðslu Ora kompakt jóla í niðursuðudós og er talið að þau taki markaðinn með stormi síðhausts árið 2009 með slagorðinu: Fljótlegra, betra, ódýrara! Það er enda það sem jólin snúast um.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *