Hitt og þetta

Það er merkileg upplifun að hitta fólk sem maður hélt í æsku að væri skrýtið og uppgötva að í raun er það stórskrýtið. Ég hef alltaf haldið að ég hefði bara ekki haft nægan þroska til að skilja, enda finnst börnum margt skrýtið sem raunverulega er eðlilegt. Hins vegar uppgötvaði ég að nú fyrst hef ég þroskann til að sjá nákvæmlega hversu skrýtið þetta fólk var og er.

Eitt þoli ég ekki við biðraðir í verslunum. Þegar nýr kassi er opnaður fer alltaf aftari helmingur biðraðarinnar á hann, þegar það ætti að falla í skaut þeirra sem lengst hafa beðið. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að öðruvísi getur þetta ekki verið, en ég leyfi mér að vera pirraður. Ég þrífst á því.

Annað þoli ég ekki, en það snýr að afgreiðsluhlið verslana. Þegar afgreiðslufólk er allt af vilja gert og fer út fyrir skyldu sína og þolinmæði til að aðstoða kúnna, og kúnninn byrjar með leiðindi. Þetta skil ég engan veginn en þó lendi ég oft í þessu í eigin starfi og verð jafnvel oftar vitni að því þegar ég versla sjálfur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *