Lélegt málfar á Fréttablaðsinu er engin nýlunda

Á forsíðu Fréttablaðsins er frétt með yfirskriftina „Gleymdi tönnunum“. Hér birtist hún í heild sinni:

Innbrotsþjófur í Svíþjóð varð fyrir því óláni að gleyma fölskum tönnum á vettvangi. Til að bæta gráu ofan á svart var kennitala þjófsins grafin í góminn. Lögreglu fann því manninn fljótt.
Hinn ólánsami innbrotsþjófur braust inn í mötuneyti í Karlshamn en fann engin verðmæti í kaffiteríunni og þegar hann flúði vettvanginn týndi hann tönnunum.

Í fyrsta lagi: Til hvers að birta svona gúrkutíðindi? Þetta er ekki fréttnæmt og svo sannarlega ekki fyndið.
Í öðru lagi er það málfarið. Ég fyrirgef (kannski) innsláttarvilluna í lok fyrstu efnisgreinar, en sú síðari er gjörsamlega hræðileg. Þetta hlýtur að hafa verið ógnvekjandi vettvangur, fyrst þjófurinn (sem þó stal engu og getur þ.a.l. ekki verið titlaður þjófur) taldi sér heillavænlegast að flýja hann. Hið rétta er vissulega að afbrotamaðurinn (þar sem það er vissulega afbrot að brjótast inn) flúði af vettvangi.

Er þetta smámunasemi? Ef til vill. En hitt ber þó að athuga, að fyrst 53 orða grein er svona illa skrifuð, hvernig ætli afgangurinn af blaðinu sé? Það á ekki að vera til fyrirmyndar þegar einstaka blaðamenn skrifa vel. Það á að heita sjálfsagt. Og því verður seint logið upp á skríbenta Fréttablaðsins, að þeir fari ekki með málið eins og Ödipus með mömmu sína, beint upp í óæðri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *