Félagsfræðingar farið heim – ég hef leyst vandann

Eftir nokkra íhugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem fleygja grjóti og þess konar í ljósaskilti fyrirtækja, aðhafast slíkt einfaldlega til að tryggja fortíðarþrá sinni eldsneyti, svo þeir geti síðar gengið um götur og bent á brotnu skiltin, tuldrandi um að það sé af sem áður var, að heimur versnandi fari og að tímarnir séu hinir hinstu og verstu; að áður hafi þar þrifist verslun með zetu, þar sem nú stendur aðeins eftir brotið ljósaskilti. Þannig er vandamál sem áður var talið að ætti djúpar og flóknar félagslegar rætur í raun voða einfalt og tiltölulega auðvelt úrlausnar; við leggjum blátt bann við notkun á ljósaskiltum. Þar með má tryggja að þau verði eigi framar eyðilögð, auk þess að það gefur skemmdarvörgunum tilefni til fortíðarupphafningartuldurs, allt verandi verra í dag, nú þegar engin ljósaskilti eru eftir til að eyðileggja, og sér þannig fortíðarþrá þeirra farboða án þess að nokkur eyðilegging eigi sér stað.
Þessa merku vísindalegu uppgötvun gerði ég á gangi áðan, þegar ég uppgötvaði að áður höfðu þrifist fimm (ef ekki fleiri) verslanir svokallaðra kaupmanna á horninu í hverfinu mínu, þar sem ekkert er í dag utan í mesta lagi staka skilti með gati. Er það jú ekki frumhlutverk vísindanna eftir allt saman, að veita umhverfinu athygli, og draga ályktanir þar af?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *