Um forvarnargildi aðvörunarmiða á neysluvörum

Hér ætla ég að birta helstu atriði rannsóknar okkar Brynjars ef einhver skyldi hafa áhuga.

Tilgáta: Varúðarmerkingar á sælgætisumbúðum, séu þær áþekkar þeim sem finna má á sígarettupökkum, hafa minni áhrif á reykingamenn en þá sem reykja ekki.

Aðferð: Við keyptum fjórar tegundir af sælgæti og tvennt af hverju. Á helminginn límdum við aðvörunarmiða áþekka þeim, sem finna má á sígarettupökkum, en með yfirfærðum boðskap gegn sælgætisáti. Hinn helmingurinn fékk að standa óáreittur. Til að hægt væri að alhæfa útfrá niðurstöðum rannsóknarinnar brugðum við á það ráð að notast við megindlegar rannsóknaraðferðir, í þessu tilviki spurningalista. Spurningalistann hönnuðum við þannig, að hver sælgætistegund kæmi fyrir tvisvar, með og án aðvörunarmiða, og fyrir hvern flokk (þá átta í heildina) var kvarði frá einum og upp í sjö. Viðmælendum var sýnd ein vara í einu, í handahófskenndri röð, og þeir beðnir að segja okkur, miðað við kvarðann, hversu vel þeim leist á sælgætisumbúðirnar, þar sem 1 táknaði mjög lítið, 4 táknaði hvorki né og 7 táknaði mjög mikið. Eftir að hver þátttakandi hafði svarað spurningalistanum spurðum við hann að endingu hvort hann reykti. Allir þátttakendur voru látnir vita um tilgang rannsóknarinnar rakleiðis eftir á.
Þátttakendur voru fullorðnir einstaklingar á aldursbilinu 18 – 80 ára, ekki yngri því miða varð við lágmarksaldur til tóbakskaupa. Reykingamenn skilgreindum við miðað við tilkomutíma fyrrnefndra aðvörunarmerkinga fyrir þremur árum, þ.e. reykingamaður verður að hafa reykt að staðaldri í að minnsta kosti þrjú ár. Engin skilyrði voru sett með reyklausa utan það, að þeir máttu ekki hafa reykt í a.m.k. hálft ár.

Niðurstöður: Ekki fannst marktækur munur á reykingamönnum og reyklausum þegar kom að sælgæti án aðvörunarmiða. Hins vegar fannst marktækur munur á hópunum hvað varðar löngun þeirra í sælgæti með aðvörunarmiðum. Reykingamönnum fannst sælgætið aðlaðandi án tillits til aðvörunarmiða, þar sem meðaleinkunnagjöf fyrir sælgæti án miða var 4,4 og 4,2 með miða, en reyklausir vildu mun síður fá sælgæti með aðvörunarmiða, þar sem meðaleinkunnagjöf þeirra fyrir sælgæti án miða var 3,7 en 2,9 með miða. Þar af leiðandi hafa aðvörunarmerkingar lítil sem engin áhrif á reykingamenn en þónokkur áhrif á þá sem reykja ekki.

Tilgátan er því studd.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *