Nýr stalker eða gamall vinur?

Í sumu er minni mitt gloppóttara en ósonlagið. Til að mynda er kona sem alltaf heilsar mér með nafni þegar hún sér mig, sem er raunar alltaf þegar ég er í vinnunni. Hún hefur tendens til að dúkka upp þegar síst skyldi, eins og síðast þegar hún hnippti í öxl mína og sagði „Hæ Arngrímur!“ eða þarsíðast þegar hún stökk fram undan súlu og hrópaði „HÆÆÆÆJJJJ!!!“

Ég hef ekki hugmynd um hver þessi kona er. Ég er ekki einu sinni viss um að ég vilji vita það, en svo virðist sem hún þekki mig einhversstaðar frá. Kannski er hún bara klikkuð, hver veit. Það er samt ekki mjög huggandi tilhugsun.

Snorra-Edda

Ætli við bróðir minn séum þeir einu sem höfum húmor fyrir því að Heimdallur sjái jafnt nótt sem dag hundrað rasta?

Mitt ófélagslynda sjálf
Áðan barðist ég við að hringja í fólk upp á að setjast við Austurvöll og dreypa á bjór í sólinni. Ég hugsaði með sjálfum mér að ég gæti notið mín jafnvel einn. Svo ég grillaði tvo hamborgara, opnaði bjór og settist út á svalir með góssið. Það var ömurlegt. Stundum er félagsskapur nauðsyn. En hvers á ég að gjalda fyrir að allir séu í prófum nema ég?

Doctor philosophiae

Við Skúli litum við á doktorsvörn Sverris áðan. Nú vitum við hvernig slíkt battarí gengur fyrir sig. Slík vitneskja getur komið metnaðarfullum námsmönnum að góðu haldi í framtíðinni. Alveg væri ég annars til í að upplifa doktorsvörn þar sem andmælt er ex-auditorio. Það væri töff. Annars voru minni átök en ég bjóst við. Ég sá fyrir mér miklar fræðilegar deilur sem jafnvel ristu djúpt. Enda sagnfræðingar lítið þekktir fyrir annað.

Nokkra sá ég á vörninni sem ég kannaðist við. Auk Ármanns og Katrínar, að sjálfsögðu, sá ég Sigurð „sögu“ Ragnarsson fyrrum MS-rektor, Clarence Glad, Svan Gettu-betur kempu, sem ég raunar þekki ekki neitt, Véstein og Óla Gneista vantrúarmann. Einnig sá ég mann ískyggilega líkan Jóhanni Grétari Kröyer Gizurarsyni, en ég þorði ekki að spyrja.

Að þessu loknu kíktum við Skúli á Prikið, hvar við ræddum tilgang lífsins og heimsins málefni.

Bloggað um veginn

Ég er örendur á líkama og sál. Hvaðan kemur þessi þreyta?

Mig langar til að skrifa, en ég hef ekkert að segja, svo ég dæli bara í ykkur Lao Tse-legu spakmæli:

Allir óska sér þess einhvern tíma að líf þeirra taki gjörbreytingum og að allt verði eins og best væri á kosið. Þeir sömu missa af hamingjunni, því hún felst ekki í því að hafa, heldur að öðlast. Sá sem hefur allt hefur ekkert til að eignast. Fullkomnun útilokar framfarir. Menn eiga að setja sér há takmörk svo þeir hafi einhver, en standi ekki uppi hafandi sigrast á þeim öllum. Þar er hryggðin fólgin.
Af því má sjá að í draumnum felst raunveruleg sæla, en í veruleikanum óveruleg martröð.

Segið svo að þessi síða standi ekki undir nafni.

Kvikmyndir og höfuðföt

Ég var að koma af Shi mian mai fu á kvikmyndahátíð. Mjög góð mynd, betri en Hero, en slær þó Crouching Tiger ekki við. Þá hef ég séð tvær myndir á hátíðinni, hin verandi Der Untergang, sem var alveg frábær. Ég er að hugsa um að skella mér á nokkrar í viðbót áður en hátíð er úti.

Ég er búinn að panta hattinn góða. Þá er að vona að höfuðmælingin sé rétt og að hatturinn skili sér tímanlega. Lesendum til gagns og gamans skal getið að höfuð mitt er 57 cm. í ummál. Því nota ég hattastærð 7 1/8. Jahá.

Erzhählen Sie von Ihnen Mutter.

Ef einhver vill iðka þann gamla sið að gefa mér sumargjöf, þá skal það vera þetta. Er til meiri snilld?

Hattar virðast vera að komast aftur í tísku. Það veit aðeins á gott. Svo þarf aðeins að leyfa götulistamönnum að iðka listir sínar í miðbænum fyrir pening og La Belle Epoche Íslands verður að veruleika. Við verðum samt betri en frakkarnir. Við leyfum engum flugmönnumstökkva fram af Hallgrímskirkjunni.

Hljóðrita málhelti?

Það eru ekki til sérstök hljóðtákn fyrir málhelti, einfaldlega vegna þess að hljóðfræði er ætlað að sýna hvernig hljóð hafa áhrif á merkingu tungumálsins og réttan framburð (að sjálfsögðu miðað við viðeigandi mállýskur, enda ekkert rétt eða rangt í þeim efnum – aðeins eldra og yngra. Þess vegna er það rangt hjá Bibba, að norðlenskan sé ósiður, því hún er eldri en sunnlenskan). Sjá ítarlegri umfjöllun um hljóðfræði hér.

Séu menn aftur á móti spenntir fyrir að hljóðrita málhelti má auðveldlega líkja eftir því með þeim hljóðtáknum sem þegar eru til. Ég er samt ekki maður til þess. Langt er síðan ég lærði hljóðfræði og ég hef flestu gleymt. Í fyrra vorum við snuðuð um hljóðfræðikennslu og því missti ég af góðu tækifæri til upprifjunar. Og ég er ansi hreint hræddur um að ég nenni ekki að leggja á mig frekara hljóðfræðinám fyrr en á háskólastigi.

Svo er til fólk eins og Silja Hlín, sem fær að læra hljóðfræði, og fussar (já, fussar!) yfir því. Þvílíkt og annað eins vanþakklæti. Þessi unga kynslóð, o.s.frv.