Atli Freyr hengir bakara fyrir smið

Háæruverðugur Atli Freyr Steinþórsson hefur einnig sitt um málið að segja, en segir í raun og veru ekkert sem ekki hafði áður komið fram í máli hæstvirts Björns Rúnars. Hef ég einnig svarað honum, en leyfi mér að fara yfir nokkra punkta, sem skerpt gætu sýn lesenda á meiningu umdeildrar færslu.

1. Páfinn var góður maður. Okkur greindi hins vegar á um fóstureyðingar og réttindi samkynhneigðra. Hann frelsaði Pólland frá kommúnismanum sem ól af sér keðjuverkandi áhrif um austantjaldslöndin sem varð kommúnismanum að falli.

2. Ghandhi var einnig góður maður. Hann hóf baráttu gegn apartheid í Suður-Afríku og frelsaði Indland undan járnhæl Englands.

3. Þegnar gömlu kommúnistaríkjanna sæta enn fasískri stjórn skoðanakúgara og glæpamanna. Þar eru mannréttindi í lágmarki og í raun er ástandið ekkert betra þar núna. Jafnvel verra.

4. Við stofnun hins frjálsa Indlands klufu múslimar sig frá hindúum og stofnuðu Pakistan. Milli þessara landa hafa geisað blóðugar erjur allt frá því skömmu áður en Ghandhi dó. Boðskapur Ghandhis lifir enn, en því miður gera deilurnar það líka.

5. Ég ber mikla og djúpstæða virðingu fyrir Ghandhi, en ekki jafnmikla fyrir páfa, sökum ágreinings okkar. Báðir lögðu þeir sitt af mörkum, þó deila megi um hversu miklu þeir hafi komið til leiðar með boðskap sínum.

6. Á engan hátt held ég því fram að tilraunir þeirra til mannbetrunar hafi ekki komist til leiðar, einfaldlega vegna þess að þeir hafi verið „helvítis trúarleiðtogar“. Hefur Atli rifið trúarleiðtogann úr samhengi og skotið „helvítis“ þar fyrir framan, rangri túlkun sinni á bloggfærslu minni til framdráttar.

7. Ég hef marxíska skoðun á trúarstofnunum, þó ég kenni mig að öðru leyti lítið við þann mann. Á leiðtogum þeirra hef ég enga eina skoðun, enda eru þeir eins mismunandi og þeir eru margir. Á páfa hef ég enga andúð, og sér í lagi hefði ég ekki andúð á honum fyrir að vera trúarleiðtogi. Guðlega dýrkun á páfa skil ég hins vegar ekki og þegar fregnir af páfa birtast á kortérs fresti eftir dauða hans finnst mér nóg um, pirrast og asnast til að láta gamminn geisa á bloggsíðu.

8. Andvígur stórmennasöguskoðunum, segir hann. Hreint ekki, en ég vil hvorki líta á söguna eingöngu í ljósi stórmennis eða almúga, þar sem báðir aðilar eiga að sjálfsögðu hlut að máli. Eða náði Adolf Hitler kannski kjöri án fólksins?

Mér þætti gott að vita hvort Atla Frey þyki ég enn fordómafullur eða hvort söguskoðun mín sé póstmódernísk eða sósíalísk. Má hann það vita, að mínir einu fordómar beinast gegn fordæmendum, en á þeim hef ég djúpstætt hatur. Að endingu vil ég vita hvort deilur þessar um keisarans skegg hafi í það minnsta komið Atla Frey og Birni Rúnari í skilning um að ég hati ekki páfa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *