Hrísateigur 6

Ofarlega á Hrísateignum, við horn hans og Hraunteigs, stóð hús í stórum trjágirtum garði. Grindverkið kringum lóðina var gamalt og fúið og það var húsið raunar augljóslega líka, þótt lítið sæist í það gegnum trjáþykknið. Það sem af garðinum sást var í niðurníðslu.

Fyrir fjórum árum, meðan ég var blaðburðardrengur, þurfti ég að fara með blaðið í þetta hús. Þá hafði ég tekið að mér aukagötu yfir helgi til að drýgja tekjurnar, en þær voru heldur rýrar, þrátt fyrir aukavinnuna sem var mikil og fylgdi nokkurt álag. Þetta var í desember 2000, í hámarki skammdegisins, og svo fannst mér á húsinu, að í því væri álíka mikið líf og í rotnum garðinum. Samt virtist búa fólk þar. Fólk sem vildi fá Moggann á morgnana.

Fleira veit ég ekki um þetta hús annað en það að nú er búið að rífa það. Þessu tók ég eftir áðan. Hús sem stóð þarna fyrir minnst tveim vikum er nú horfið og garðurinn í enn meiri rúst en áður.

Þótt húsið hafi verið nokkurt lýti á annars fallegri götu finnst mér synd að missi þess. Þetta var þess konar hús, að ýmsar sögur hafa sjálfsagt spunnist um það og íbúa þess (að ég tali ekki um alla mögulega fyrrum íbúa þess) og farið sem eldur í sinu milli krakkanna í hverfinu. Þetta var síðasta draugahúsið í hverfinu, líkt og Laugarnesvegur 66 var í gamla daga, og nú er það farið. Nútíminn eyðir öllum draugasögum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *