Hobbitinn

Ég kláraði Manngerðirnar í gær og skemmti mér hið besta. Svo las ég ársgamla ritgerð eftir sjálfan mig, Samanburður á norrænni goðafræði og Hringadróttinssögu. Mér finnst hún ekki góð lengur. Orðin samantíningur og kraðak lýsa henni ágætlega. Það er því meiri þörf á Hobbitaritgerð en ég í fyrstu hugði, þ.e. fyrir sjálfan mig. Ég get ekki sætt mig við að svona pappír liggi eftir mig án lagfæringa.
Í gærkvöldi horfði ég á Fisher King eftir meistara Terry Gilliam. Sem barn fannst mér hún með öllu óskiljanleg, en þegar ég sé hana núna finnst mér hún mjög góð, og handbragð Gilliam leynir sér ekki. Og ekki spillir fyrir að Tom Waits kemur fyrir í myndinni sem fótalaus fyrrum hermaður.
Í kvöld fer ég á hátíðartónleika Óperukórs Hafnarfjarðar í Hafnarborg og horfi á föður minn gaula úr sér lungun. Það verður áreiðanlega gaman. Svo hefst ég handa við að rýna í Hobbitann eftir bitastæðum smáatriðum, t.d. því að Gandalfur kljáist við sjálfan Sauron í henni, en þá kallaði hann sig Seiðskrattann (e. The Necromancer) og var fremur veikburða miðað við venjulega. Annars hefði Gandalfur ekki getað rassgat. Þetta kemur raunar ekki í ljós fyrr en í Hringadróttni.
Annars finnst mér orðið bitastætt engan veginn lýsa því sem það á að gera. Ég sé alltaf fyrir mér ælu með bitum í. Mér finnst það þess vegna ekkert sérlega aðlaðandi og forðast að nota það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *