Leslistinn

Ég mæli með Furðulegu háttalagi hunds um nótt (The Curious Incident of the Dog in the Night-time). Hún er mjög góð. Eitt er slæmt við hana, fyrir utan það sem ég minntist á í síðustu færslu, en margir munu eflaust styrkjast í trú sinni á að allir einhverfir séu góðir í stærðfræði. Sem er bull. En bókin er góð og gefur góða mynd af því hvernig er að vera einhverfur og hvernig fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir því hvernig á að umgangast einhverfa.

Ég hef ákveðið að lokaritgerðin mín í bókmenntunum verður um Hobbitann, en hana þarf ég tæpast að lesa aftur. Auk þess hef ég áður skrifað ritgerð um samanburð á norrænni goðafræði og Hringadróttinssögu, og fannst leiðinlegt hvað ég varð að vera stuttorður um Hobbitann. Nú get ég bætt úr því.

Leslistinn minn fyrir bókmenntirnar hefur því breyst talsvert frá því í upphafi. Nú lítur hann svona út: Germanía eftir Tacitus, Manngerðir eftir Þeófrastos, Furðulegt háttalag hunds um nótt eftir Mark Haddon, Hobbitinn eftir Tolkien, Íslenzkur aðall og Edda eftir Þórberg Þórðarson, Skugga-Baldur eftir Sjón og Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason.

Nú er ég að lesa Manngerðir eftir Þeófrastos. Það tekur skjótt af. Í henni rakst ég annars á gott besserwiss:

Níska:
„… Hann er ekki líklegur til að leyfa nokkrum manni að éta fíkju úr garði sínum og gangi einhver yfir landareign hans þá leyfist honum ekki að taka upp ólífu eða döðlu sem fallið hafa á jörðina.39“

Í athugasemdunum aftast stendur:

39: Daðlan sem hér um ræðir er ekki eins saklaus og virðist við fyrstu sýn. Í riti Þeófrastosar Um rannsóknir í grasafræði (iii 3, 5) segir: „Í nágrenni Babýlon er döðlupálminn aðdáunarverður, en á Grikklandi þroskast ávöxturinn ekki einu sinni, og sums staðar myndast yfir höfuð enginn ávöxtur.“
Á þeim forsendum að grasafræðingurinn Þeófrastos gæti ekki hafa skrifað um „döðlu sem hefur fallið á jörðina“ í Attíku eignar ritstjóri Oxford útgáfunnar, Hermannus Diels, þessi orð hinum dularfulla höfundi forspjallsins og lokaorða sumra kaflanna ef að líkum lætur. Hann bendir á að döðlur detti ekki á jörðina nema þær séu þroskaðar og að Þeófrastos hafi vitað það manna best að slíkt gerðist ekki á Grikklandi. Hins vegar hafi ávöxturinn þroskast ágætlega í Sýrlandi og Assýríu og höfundur þessa orða hljóti að vera þarlendur maður enda myndi atriðið ekki samræmast staðháttum í Attíku og missa algjörlega marks hjá aþenskum lesanda. Röksemd þessi verður að teljast einkar snjöll og er hún gott dæmi um textafræði sem gefur leynilögreglusögum ekkert eftir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *