Kaffimeistarinn

Ég fór hamförum inni á kaffistofu í dag. Þannig er mál með vexti að ég drekk kaffi, eins og allir góðir menn, þ.e. nema þeir slæmu, m.ö.o. frakkar og nútímalistamenn. Í þeim tilgangi að svala fíkn minni í þann svarta líknarvökva seildist ég í bolla uppi á hillu og nálgaðist kaffikönnuna, með bjarta von í hjarta. Aðeins var nóg kaffi í könnunni til að fylla bollann minn til hálfs svo ég gekk að kaffivélinni, sem er apparat dauðans og framleiðir vont kaffi. Lagði ég bollann undir þartilgerðan stút og þrýsti á hnappinn merktan „Kaffi – ýtið“.

Til að stöðva flauminn þarf að þrýsta aftur, en hann stöðvast ekki fyrr en sléttri einni og hálfri sekúndu eftir að þrýst er. Allt fór í handaskolum og kaffið sullaðist út um allt.

Þegar ég hafði þurrkað eftir mig rak ég augun í svonefnt „bragðsíróp, fyrir kaffi“. Ég ákvað að prófa og fékk mér Irish Cream síróp. Það var viðbjóður. Þegar ég hafði pínt mig gegnum hálfan bolla af „bragðbættu“ návatninu flýtti ég mér hröðum skrefum að kaffivél dauðans og lagði bollann undir stútinn, andaði djúpt og þrýsti á hnappinn. Kaffið vall út og ég þrýsti fljótt aftur á hnappinn. En einhverra hluta vegna hélt ég að ég hefði ekki þrýst nógu vel á hann og þrýsti aftur.

Lesendur mega giska á hvað gerðist og hversu slæmt það var.

Sögnin að þrýsta kemur sjö sinnum fyrir í ýmsum myndum í þessari færslu.

Hvað annað snertir afgreiddi ég nafntogaðan matreiðslumeistara á kassa í gær. Hann var kurteisin uppmáluð. Í dag inni í deild fékk ég að heyra að sami matreiðslumeistari hafi orðið dýrvitlaus (e. gone apeshit) og krafist þess að fá að kaupa vöru sem ekki var til sölu og staðið á orginu allt þar til hann fékk það sem hann vildi (mér finnst hann hefði ekki átt að fá þetta). Það er alltaf gaman að heyra nokkrar hliðar á sömu sögu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *