Óheimil tilvitnun í rangan aðila

Í DV í gær birtist meint tilvitnun í þessa bloggsíðu undir fyrirsögninni „Ljóð dagsins“. Tilvitnunin var á þessa leið:

„Það mun því kosta meira en að lýsa upplifun sinni af evrópskum borgum til þess að bæta borgina, það mun kosta hugarfarsbreytingu, endurskoðun á lífsstíl Reykvíkinga. Það er því borin von að ræða um betri borg fyrr en við erum tilbúin til þess að endurskoða lífsstíl okkar“.

Það er í samræmi við heimildavinnu DV að þessi tilvitnun er ekki í mig heldur í formann stúdentaráðs, Elías Jón Guðjónsson, sem svo vill til að ég þekki. Fyrirsögnin er aftur á móti frá mér fengin og myndin við tilvitnunina líka. Þá er í þessu samhengi rétt að árétta það sem stendur neðst á tenglalistanum mínum:

„Allt efni Bloggsins um veginn er verndað af ákvæðum höfundarréttarlaga og má ekki afrita með neinum hætti, nema formlegt leyfi höfundar liggi fyrir. Öllum sem vitna til Bloggsins um veginn er sömuleiðis skylt að hafa leyfi höfundar, og skal þá haft samband gegnum síma eður tölvupóst, og gefið upp nafn þess miðils eða slóð þeirrar vefsíðu, sem vitnar í Bloggið um veginn, auk vísbendinga um staðsetningu tilvitnunarinnar í téðum miðli, hvort sem það er gert með blaðsíðutali eða öðrum hætti.

Notkun, sem brýtur í bága við lög eða samninga, getur haft bóta- og refsiábyrgð í för með sér“.

Starfsfólk DV er því vinsamlegast beðið að iðka vandaðri vinnubrögð næst þegar það hyggst vitna í Bloggið um veginn. Formlegt leyfi er lágmark.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *