Sönn saga

Klukkan er þrjú. Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands (st. MMBÍ) stendur við upplýsingaborð í IKEA. Hann er hugsi, því hann er ekki enn farinn í kaffi. Það er skrýtið. Skyndilega gellur við: Hey!
MMBÍ (kemur niður úr skýjunum): Já?
Kúnni: Hvað kostar þetta?
MMBÍ: Það stendur á miðanum.
Kúnni: Hvaða miða?
MMBÍ: Þessum gula.
Kúnni: …
MMBÍ: Hann hangir á stólnum.
Kúnni (lítur á miðann, muldrar): Já, já! Tek ég bara þennan?
MMBÍ: Nei, hann er í sjálfsafgreiðslu.
Kúnni: Hvað er það?
MMBÍ: Hún er inni á lager. Þar eru númeraðir gangar og hillur merktar bókstöfum. Það stendur á miðanum …
Kúnni (pirraður, grípur frammí): Og hvar finn ég þá þetta?
MMBÍ: Það stendur á miðanum.
Kúnni (lítur á miðann, les upp tölu og bókstaf): Og hvernig finn ég þetta?
MMBÍ (myrðir hann í huganum): Númerið er gangurinn sem hillan er í og bókstafurinn er hillan sem stóllinn er geymdur á.
Kúnni: Ég skil þetta ekki.

Klukkan er tæplega kortér yfir þrjú. Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands stendur við upplýsingaborð í IKEA, með hárið í höndunum. Hann er hugsi, því hann hefir komist að því, að einfaldleikinn er dauðadæmdur í höndum Íslendinga. Og hvar er stelpan, sem átti að leysa hann af? Veit hún ekki að hann er Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands?
Skyndilega gellur við: Ert þú að vinna hérna?
MMBÍ (snýr sér við, í huganum: Nei, og það stendur hvorki IKEA á skyrtunni minni né nafnspjaldinu): Jú *andvarp*, ætli það ekki …
Endir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *