112125764790585083

Í gegnum tíðina hefur verið vinsælt að trúa því að þeir sem framið hafa sjálfsmorð gangi aftur, án þess að nokkur hafi velt því fyrir sér, hvers vegna sjálfmorða ættu að vilja ganga aftur. Leiddist þeim lífið ekki nógu mikið til að finna sér verðugri viðfangsefni í dauðanum, en að spígspora um sama hallærisplanið, í langtum leiðinlegri erindagjörðum: Nefnilega að gera ekki neitt? Eða voru þeir dæmdir til þess af réttlætum og algóðum guði? Eða hefur það kannski komið á daginn að alþýðuskýringar eru ekki rökfræðilega hárnákvæmar?

Annars er ég nærri ákveðinn í að skrifa um samfélagsleg áhrif trúarbragða gegnum tíðina fyrir kjörsviðsverkefnið (lesist 25 blaðsíðna ritgerð) næsta vetur og er þegar farinn að sanka að mér heimildum. Þá vil ég byrja á að komast höndum yfir grundvallarrit trúarbragðanna auk áhrifaríkra spin-off-rita, svo sem Malleus Maleficarum, sem var lútersk (því katólikkarnir fordæmdu trú á tilvist norna sem villutrú) kennslubók í að finna nornir og hvernig skyldi refsa þeim. Mjög vinsæl bók. Kom mörgum á eldinn.

En spurningin er þessi: Er til merkilegra rit tengt súmersku goðafræðinni en Gilgameskviða? Helst vantar mig skipulega upp sett rit, eins og Snorra-Eddu, sem inniheldur sköpunar- og flóðasöguna, sem og lýsingar á helstu goðum og goðmögnum trúarinnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *