Minnisleysi

Ég sá mann í vinnunni sem mér fannst ég kannast svo við. Hann var lengi á vappinu milli deilda og kom nokkrum sinnum fram og til baka um deildina mína. Allan þann tíma fylgdist ég með honum og reyndi að koma honum fyrir mig, en allt kom fyrir ekki. Á endanum ákvað ég að ég hlyti að þekkja hann úr vinnunni og að hann væri fastakúnni.

Loks nálgaðist hann mig með heljarinnar lista af vörum sem hann vildi fá sendar heim til sín. Ég sló honum upp í tölvunni og spurði hvort hann byggi enn á Höfn, en hann reyndist fluttur til Tálknafjarðar. Sagðist hann flytja einu sinni á ári. Þá fyrst kveikti ég á perunni og spurði hvort hann væri ekki sá sem jarðsöng langömmu mína fyrir rúmum mánuði. Það stóð heima. Þá reyndist hann líka hafa verið að velta fyrir sér hvaðan hann þekkti mig.

Ég hef verið að pæla í að kaupa mér Polaroid-vél, taka mynd af öllum sem ég hitti og skrifa nafn þeirra aftaná, eins og náunginn í Memento gerði. Sá þjáðist raunar af alvarlegra minnisleysi en ég. Enn er ég þó ekki orðinn nógu desperat til að tattóvera upplýsingar á skrokk mér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *