Bækur og kveðskapur

Keypti aðra bók í dag, Veröld okkar vandalausra, eftir Kazuo Ishiguro. Standist hún væntingar mínar verður hann aldrei kallaður neitt annað af mér en Meistari Ishiguro. Það hefur verið mér mikið heillaspor að kynnast þessum höfundi, og jafnvel þótt allar hinar bækurnar hans reyndust vera eitthvert drasl eða rúnk, þá skipti það engu máli. Svo góð var þessi eina sem ég hef lesið hingað til.

Harpa
bað um sýnishorn af ljóðasmíðum mínum. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við því. Ég leyfi mér að birta tvö þeirra fimm ljóða sem ég flutti fyrr í dag, með þeim fyrirvara þó, að ljóðsmíðar mínar einskorðast ekki við atóm, þótt hér birtist engar ofurbragsmíðar:

Óður til ellibelgja
Sú gamla,
nú loks er orðin klikkuð.
Ei vitandi vits,
ekkert hafandi.

Við gætum
varpað henni
fram af kletti,
úr hjólbörum okkar?

Nei.
Hún á betra skilið.
Við skiljum hana eftir
hjá góða fólkinu
á elliheimilinu,
sem dópar hana upp
og lætur hana hlusta
á harmonikkutónlist.

Tækifærisljóð
Að finna viðeigandi orð
yfir það andartak
er þú leist hana fyrst augum
er jafn ómögulegt
og að reyna að hengja sig
án reipis.

Að biðja mann
um að finna viðeigandi orð
yfir það andartak
er hann leit hana fyrst augum
jafngildir því
að reyna að sannfæra mann
sem reynir að hengja sig án reipis
um að lífið sé reipið
sem hann vilji hengja sig í.

En augljóslega eru báðir
nógu desperat til að reyna.

Meiri kveðskap má finna á þessari síðu, sem senn mun vakna úr alltof löngum sumardvala.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *