Þakkir

Mín helsta stoð í lífinu er að vita af fólki sem gerir sig út fyrir að hafa áhuga á mér og gerðum mínum. Það þykir mér vænt um, og hefur hvatt mig til dáða. Ef ég svo kæmist að því að það væri allt saman lygi myndi ég áreiðanlega skrá mig í frönsku útlendingahersveitina (hvurslags hersveit er það nú eiginlega annars? Eru þeir bara útlendingar í augum útlendinga, eða líka í eigin augum? Varla líta þeir á sjálfa sig sem útlendinga. Nema þeir líti á sig sem útlendinga í eigin landi, einhvers konar landeyður sem þurfa þjóðarskorts síns vegna að berjast við glæpamenn á fjarlægum söndum? Öh, ble.). Ég veit ekki hvurslags skrípi ég kannski væri ef ekki væri fyrir það að í það minnsta eru örfáar sálir sem hafa trú á mér, einhverra órannsakanlegra hluta vegna, en þess lags stuðningur verður ekki metinn til fjár.
En þetta er sumsé ekki þunglyndispistill, heldur einhvers konar þakkarræða til einskis sérstaks. Ég er nefnilega þeim lesti gæddur að geta ekki tekið á móti hrósi, verð vandræðalegur, eins og mér sé þvert um geð að svara (maðurinn sem dó úr lítillæti? Ekki ég!), og styn í besta falli aumingjalegum þökkum sem eflaust virka í meira lagi yfirborðskenndar og ómeintar. Þess vegna finnst mér tímabært að koma að minnsta kosti einhverjum þökkum frá mér. Kannski les þetta einhver sem á það inni. Þeir taki það bara til sín sem þykjast eiga það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *