Spekingar spjalla

Það er gott að vita til þess að helsti sérfræðingur Íslands um málefni samkynhneigðra hafi fundið sér tíma til að skrifa bakþanka í Fréttablaðið. Það er alveg rétt hjá honum að samkynhneigðir karlmenn séu ríkir og voldugir nútildags, eyði miklum peningum (?) og hafi enga ástæðu til að væla yfir neinu. Fyrir utan það auðvitað að „þeir njóta forréttindana sem fylgja því að vera minnihlutahópur“, eins og að mega hvorki gifta sig né ættleiða börn. En eins og Jón Gnarr segir er það kostur; þeir þurfa nefnilega „sjaldnast að hafa áhyggjur af börnum og barnauppeldi og allri fyrirhöfninni og kostnaðinum sem því fylgir“. Þarna hittir hann naglann á höfuðið og vekur samfélagið til meðvitundar. Menn héldu nefnilega fyrir tíma Jóns að fólk eignaðist börn vegna löngunar, en ekki af sárri nauðsyn. En langanir samkynhneigðra ná aðeins til holdlegra fýsna og því heppilegt fyrir þá að þeir girnist eingöngu fólk af sama kyni. Reisið manninum styttu! Veitið honum heiðursdoktorspróf og gjörið hann að félagsmálaráðherra! Það er kominn tími til að sérfræðingarnir fái svigrúm til að ræða málefni samkynhneigðra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *