Annað klukk

Emil hefur klukkað mig. Ég veit ekki hvort ætlast sé til þess að maður svari klukki tvisvar, en gamla klukkið var svo niðurdrepandi að mér finnst ég skyldugur til að bæta við. Og það er nú einu sinni eins og maðurinn sagði: Bloggið er sjálfhverft. Raunar er allur tjáningarmáti sjálfhverfur á sinn hátt, því með því að tjá sig gerir maður jú ráð fyrir því að einhver nenni að hlusta.

1. Ég stundaði nám í Langholtsskóla fyrsta mánuð (eða fyrstu tvo mánuði) skólagöngu minnar. Þaðan fluttist ég í Laugarnesskóla og var þar frá seinni hluta haustannar 1990 til vorsins 1997.

2. Einhvern tíma þarna á milli, líkast til árið 1994, þegar ég var í níu ára bekk, tók ég kveðskaparlistina upp á arma mér, tók að dýrka Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og lærði nokkur kvæða hans utan að, þar á meðal Nirfilinn og Konuna sem kyndir ofninn minn. Þau kvæði kann ég ekki lengur. Ein minna elstu minninga sem næsta upprennandi stórskáld þjóðarinnar, að því er ég sjálfur taldi á þeim tíma, á sér stað í æfingatíma hjá kennaranema. Hún gaf okkur frjálsan tíma og ég tók til við að berja saman rímur. Skyndilega verð ég þess var að hún stendur yfir mér og spyr mig hvort ég sé skáld. Þá segist ég vera næsti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, nema ég heiti Arngrímur og sé frá Vík (Vík fyrir Reykjavík).

3. Á þessu kveðskaparfylleríi las ég Ísland ögrum skorið eftir Eggert Ólafsson. Pabbi spurði mig hvers vegna ég læsi hann, hann hefði nú verið svo lélegt skáld og þaraðauki ekki heppnaðri en svo, að hann hafi oltið úr árabát og drukknað á Breiðafirði. Síðan þá hef ég verið alveg sammála þessu, enda þótt þetta með árabátinn sé kannski ekki sagnfræðilega nákvæmt.

Framhald í færslunni á undan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *