Bah, ég er gamall!

Ég er með kviðslit, það er ég sannfærður um. Er hættur að geta unnið nema sitjandi, og það er bannað að sitja í vinnunni. En ég fæ sjálfsagt undanþágu þegar komið er í ljós hvað raunverulega háir mér. Hvað sem þetta er þá er ég ekki hrifinn.

Ég er eitthvað svo búinn á því, finnst ég nærri því útbrunninn á unga aldri. Hægt og bítandi verð ég líkamlega meira eins og gamalmenni með magasár og kviðslit. Andlega færist ég nær því að bölva déskotans unga fólkinu og nýju tímunum, sem aldrei munu jafnast á við þá gömlu.

Senn kemur sá dagur að ég fái mér göngustaf, til að kóróna tvítuga ellilífeyrisþegann sem ég verð orðinn. Senn öskra ég pirrað „HA?!“ í hvert sinn sem á mig er yrt, sama hvort ég heyrði það eða ekki. Senn mun ég eingöngu lifa á lyfjaskömmtum, rúgbrauði og lýsi og tala um að opna fyrir útvarpið.

Þetta er hryllileg framtíð að hugsa sér svona rétt fyrir tuttugasta og fyrsta afmælisdaginn. En svo fer sem verða vill. Í það minnsta þarf ég að láta huga að þessu kviðsliti eða hvaðþaðnúer.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *