Ljóð dagsins …

… að þessu sinni eru þrjú.

Kvenmaður, eftir Jón Thoroddsen yngri:

Hún var formáli að ástarævisögum manna.
Hún var innskotskafli.
Hún var kapítulaskipti.
Og nú er hún ástarævisaga mín. En það hefur
gleymst að prenta orðin: Öll réttindi áskilin.

Af þessu má ráða að Jón Thoroddsen er greinilegur áhrifavaldur okkar mesta samtíðarskálds, Andra Snæs Magnasonar:

-, eftir Andra Snæ Magnason:

Sviðakjamminn horfir á mig
ísköldu augnaráði
eins og það hafi verið ég
sem sagði honum

að vopndauðir færu til Valhallar.

Alveg sami húmor, svipuð aðleiðsla. Hann hlýtur að ljúga því hann Andri ef hann heldur því einhvern tíma fram að hann hafi aldrei verið undir áhrifum frá Jóni. En hið eiginlega ljóð dagsins er í tilefni af árstíðinni sem líður:

Haust, eftir Andra Snæ Magnason

Ég veit að það er komið haust
vegna þess að húsin
eru orðin gul og rauð
og farin að fella bárujárnið

gamla fólkið er flogið
suður á bóginn

en haustið hefur engin áhrif á mig
því ég er sígrænn
eins og sólin.

Lofsöngurinn er ekki biflía

Oft hef ég orðið vitni að mönnum deila um hvort það geti staðist að einn dagur sé þúsund ár fyrir guði og öfugt. Það sem menn átta sig kannski ekki alltaf á er að túlkun Matthíasar Jochumson á guðdómnum á nákvæmlega ekkert skylt við guðdóminn. Þess vegna eru allar rökræður um þetta í senn fíflalegar og tilgangslausar.

Hins vegar má deila um hvort þjóðsöngurinn henti jafnt kristnum sem ókristnum. En því ætla ég ekki að vekja máls á hér.

Fyrirlitlegar skepnur

Ég leyfi mér í hroka mínum að fullyrða að ég myndi fremur deyja hinum ömurlegasta dauðdaga en láta sjást til mín róta í sorptunnum bæjarins. Hins vegar veit ég að margir kjósa hið gagnstæða. Þess vegna gengur það svo gjörsamlega fram af mér að sjá augljóslega vel setta menn með krumlurnar ofan í tunnum í dósaleit, að ég get vart orða bundist fyrir fyrirlitningu og ímugusti á þeirri herraþjóð ræflanna. Hvernig geta þessir mannhundar haft svo litla sjálfsvirðingu að þeir hreint og beint leyfi sér að vaða á silkihönskunum um skranfötur bæjarins eins og ekkert sé þeim eðlilegra? Öðru máli gegnir um fólk sem neyðist til óþurftarinnar svo það megi halda ylnum í kroppnum. En þessir trúðar á lakkskónum eru engu betri en ef pípuhattar og munnstykki færu í samkeppni við þurfalinga á betlmarkaðnum og þetta háttalag þeirra er í hæsta máta auvirðilegt, ef ekki svívirðilegt. Réttast væri að fleygja þeim á götuna, sem þannig lítilsvirða kjör þeirra sem minnstu flísina fá af hlaðborði þjóðfélagsins.