Ljóð dagsins …

… að þessu sinni eru þrjú.

Kvenmaður, eftir Jón Thoroddsen yngri:

Hún var formáli að ástarævisögum manna.
Hún var innskotskafli.
Hún var kapítulaskipti.
Og nú er hún ástarævisaga mín. En það hefur
gleymst að prenta orðin: Öll réttindi áskilin.

Af þessu má ráða að Jón Thoroddsen er greinilegur áhrifavaldur okkar mesta samtíðarskálds, Andra Snæs Magnasonar:

-, eftir Andra Snæ Magnason:

Sviðakjamminn horfir á mig
ísköldu augnaráði
eins og það hafi verið ég
sem sagði honum

að vopndauðir færu til Valhallar.

Alveg sami húmor, svipuð aðleiðsla. Hann hlýtur að ljúga því hann Andri ef hann heldur því einhvern tíma fram að hann hafi aldrei verið undir áhrifum frá Jóni. En hið eiginlega ljóð dagsins er í tilefni af árstíðinni sem líður:

Haust, eftir Andra Snæ Magnason

Ég veit að það er komið haust
vegna þess að húsin
eru orðin gul og rauð
og farin að fella bárujárnið

gamla fólkið er flogið
suður á bóginn

en haustið hefur engin áhrif á mig
því ég er sígrænn
eins og sólin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *