Hinir hinstu og verstu eins og ávallt

Eins og það var nú hljóðlátt í þessu húsi hér áður fyrr. Nú heyrist barnsgrátur að neðan, bankedíbank að ofan og rifrildi hinum megin frá; alstaðar kliður og læti. Eitt sinn bjó hér aðeins gamalt fólk. Ég get ímyndað mér að það hafi svipt það sálarró og suma hverja lífinu þegar foreldrar mínir fluttu hingað inn með tvo barnaskratta upp á annan arminn og allt sitt nýaldarhafurtask upp á hinn. Að ég tali nú ekki um þegar þriðji krakkaræfillinn fæddist með linnulausu öskri inn í þjáningar þessa heims og sprengdi hljóðmúrinn utan af húsgrindinni.

Síðan þá hefur blokkin smámsaman fyllst af ungu fólki. Og ég er eins og gamalmennin forðum; úr mér genginn af óþoli og handarbökin sundurtætt af nagi; íbúðin aldrei nógu uppkynt, hvergi frið að fá og nágrannarnir eins mikil úrþvætti og vættrass og hugsast gæti.

Karlinn á hæðinni fyrir neðan fer reglulega út og skokkar í anórakk sínum og hvítum hlaupaskóm. Hvenær barst sú ansvítans ósvinna inn fyrir garða míns fagra hverfis? Hornkaupmenn, Raggasjoppa og Þórsbakarí horfin fyrir anórakkskokkandi, tyggigúmmíjórtrandi vasadiskóaillþýði sem kaupir örbylgjufæðið í súpermarkaði og brauðið í fjöldaframleiðslukeðju, fæðir börnin gegnum vélvæddar slöngur meðan það glápir á mynddiska á nærfötunum og drekkur amrískan bjór, lemur konuna lítið eitt og rúnkar sér í snöru niðri í þvottageymslu.

Tempora malus est sögðu menn til forna. Ef þeir aðeins vissu.

Nei, ég segi nú bara sisvona.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *