Stanley Milgram

Ég hef margoft lesið um tilraunir Stanley Milgrams á hlýðni, talað um þær og skrifað um þær, t.d. á gamla Blogginu um veginn, þrátt fyrir enga sérmenntun í félagsvísindum. Mér fannst tilraunirnar sjálfar, þó ekki síður niðurstöður þeirra, með því merkilegra sem ég hafði heyrt þegar sálfræðineminn bróðir minn sagði mér fyrst frá þeim, og verið gjörsamlega heillaður og hneykslaður á sama tíma, á því hvernig tilraunirnar fóru fram, og öll þau mögulegu langvarandi áhrif hennar á þátttakendur eru vert umhugsunarefni.

Í stuttu máli snerist rannsóknin um hvernig fólk bregst við skipunum. Hún fór þannig fram að af hverjum tveimur þátttakendum var annar fenginn til að kenna hinum og hinn (vitorðsmaður) fenginn til að vera nemandi. Kennarinn og nemandinn voru hafðir hvor í sínu herbergi, og kennaranum sýnt þegar nemandinn var tengdur við rafskaut. Kennarinn var síðan beðinn um að lesa upp fyrst eitt orð, síðan fjögur möguleg orð til að para við það fyrsta. Ef nemandinn svaraði vitlaust átti kennarinn að gefa honum raflost með því að smella af rofa. Rofarnir voru um þrjátíu talsins og fóru frá 15 voltum upp í 450 (banvænt), og raflostin áttu að fara stighækkandi með hverju röngu svari.
Eftir 150 volt tók nemandinn að berjast um á hæl og hnakka með formælingum og þjáningaröskrum og vildi fá að hætta. Kennaranum var skipað að halda áfram, það væri skylda hans, ellegar væri tilraunin ónýt. Eftir um 300 volt hætti þátttakandinn að svara og engin óp heyrðust frá honum lengur, líkt og hann hefði dáið. 65% þátttakenda hélt áfram að gefa raflost allt til enda tilraunarinnar, þ.e. allt upp í 450 volt. Um 50% þátttakenda gaf 450 volta raflost nokkrum sinnum, þar til þeir voru beðnir um að hætta.
Þessi rannsókn sýndi fram á það að mannvonska er ekki bundin einhverjum illmennum, heldur öllum mönnum fær, séu þeir beittir nægum þrýstingi. Fram að þessu var það viðtekin staðreynd að t.a.m. allir nasistar hefðu verið hin verstu illmenni, en ekki eðlilegt fólk kúgað af yfirboðurum sínum.

En hvað um það, ég var semsagt að horfa á myndbandið; hina raunverulegu rannsókn. Og mér hefur sjaldan liðið eins óþægilega, enda þótt ég sé kunnugur þessari rannsókn í þaula. Það að sjá fólk brotna undir pressu, bæla niður vanlíðunartilfinningar sínar og kæfa alla siðferðisvitund og ábyrgð vegna þess að einhver maður í hvítum læknasloppi segir þeim að halda áfram! Það fær mann ekki til að líða vel, að horfa upp á nokkuð slíkt, og nærri lagi var að ég kúgaðist eftir að hafa horft á þetta. Allar mögulegar réttlætingar sem ég hafði á því að rannsóknin hafi verið framkvæmd eru horfnar úr huga mér. Enda þótt hún hafi verið nauðsynleg.

Viðbót 2010 í tilefni þess að færslan er orðin ítarefni við Fjölbraut í Ármúla:
Hluti úr myndbandinu, auk þess er nú opið fyrir athugasemdir á nýjan leik.

5 thoughts on “Stanley Milgram”

  1. Sjá líka Stanford-tilraunina. Þetta er rétt. Höfnum eðlishyggju og gerum okkur engar grillur um mannlega getu.
    PS. Að lesa Houellebecq þolir enga bið!

  2. Gengur þetta upp? Ef einhver fengi þig til að gera svona tilraun uppi í háskóla, myndir þú trúa því að hann gæti/vildi setja upp lífshættulegar aðstæður? Myndirðu ekki treysta því að ekkert myndi, þrátt fyrir allt, henda? Ég er allavega ekki alveg að kaupa þetta.

  3. Kennurunum var sagt að raflostin væru óþægileg en ekki hættuleg. Þeim var leyft að prófa 40 volt sjálfir áður en þeir byrjuðu, svo þeir fengju tilfinningu fyrir raflostunum (og til að telja þeim trú um að þau væru ekta). Hins vegar, þegar nemandinn hætti að gefa frá sér hljóð, runnu tvær grímur á flesta kennarana. Margir trúðu því að þeir hefðu drepið nemandann, enda þótt rannsakandinn fullyrti hvað ofan í annað að raflostin væru ekki hættuleg. Kennararnir treystu rannsakendum einfaldlega ekki nógu vel til að segja satt, en hlýddu þeim engu að síður.

  4. Hér er meira um tilraun Stanley Milgrams. Einn athyglisverðasti punkturinn sem ég hafði gleymt:

    Do these effects occur in „real life“?
    Hofling et al. (1966)
    * Nurses were telephoned by a doctor they didn’t know.
    * They were ordered to administer a nonprescribed drug in double the maximum dosage to a patient.
    * 22 nurses were called.
    Results: 21 out of 22 nurses (95.5%) followed the doctor’s orders.

    Slóðin ef tengillinn virkaði ekki: http://www.lermanet.com/exit/milgram/conform.htm
    Einnig sjá:
    * http://www.new-life.net/milgram.htm
    * http://en.wikipedia.org/wiki/Milgram_experiment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *