Ég mundi skyndilega eftir einum af fyrstu skóladögunum mínum í Langholtsskóla áðan þegar ég var að keyra eftir vegi þeim er kenndur er við sama holt. Þá var bekkurinn, hvaða tilgangi sem það þjónaði, á rölti með kennaranum okkar Dídí (minnir mig) upp Langholtsveginn. Hinum megin við götuna, skáhallt á móti skúr gangbrautarvarðarins (sem stendur ennþá, þótt gangbrautarvörðurinn standi sig ekki lengur, en fyrir honum bárum við virðingarblandinn beyg á sínum tíma), lá klesstur bíll í stæði. Allir strákarnir í bekknum utan ég hlógu að þessu og hentu að mikið gaman. Mér fannst þeir óþroskaðir og sagði þeim að það væri ekkert fyndið við að einhver hefði mögulega slasast í bílslysi (fátt skelfdist ég meira en árekstra á þeim árum). Þeir veittu athugasemd minni litla athygli, utan einn bekkjarbróðir minn, en hann hætti að hlæja, leit mig undarlega alvarlegum augum og sagði, í spekingslegum leiðréttingartón þess sem veit betur: Jú, víst.
Ég þagði við þann dóm. Mér var enda alveg sama þótt ég einn vissi hið rétta.
One thought on “Fyndið bílhræ”
Lokað er á athugasemdir.
tékkaðu á þessu Aggi
http://www.blog.central.is/bonusstrakar