Bretar og víkingar

Ég veit ekki hvort mér á að finnast það plebbalegra að Bretar segi Danelaw en ef þeir rembdust við að segja Danalög. Slíkt er vanþakklæti heimsins, að vér Norðurlandabúar flissum að þeim, hvurt heldur sem þeir gera.

Annars gætir alltaf ákveðins hroka í Bretum þegar þeir tala um víkingaöldina. Þeir falla nefnilega alltaf í þessa Rómaveldis – Germanarökvillu, að lítilsvirða hina meðan þeir éta svo sjálfir börnin sín, þar eð þeir sjálfir voru helmingi verri en víkingarnir í sínum eigin menningar- og landvinningareisum gegnum aldirnar. Nema víkingarnir hafi verið það slæmir að meðan Bretar létu magnþrungna reiði guðs dynja á heiðingjunum hafi þeir hugsað um lítið annað en hverjum þeir ættu að nauðga, þvínæst drepa og ræna næst.

Nei, áreiðanlega hafa þeir lítið breyst síðan þá, líkt og vér. Sjálfsagt stóðu þeir með heykvíslirnar sínar og stanguðu úr sínum feiknarmiklu tanngörðum og vændu víkinga um blóðrúnk (e. bloody wankerism), og þá er ekki nema von að hinir síðarnefndu hafi orðið sneyptir og farið að brytja þá niður.