Kjerulf ormstunga

Ég keypti í dag bókina Völuspá fornritanna og ýmiskonar athuganir eftir E. nokkurn Kjerulf, frá árinu 1945. Mér segir svo hugur um að ég hafi dottið óafvitandi í lukkupottinn og muni geta haft hina mestu skemmtan af þessari bók. Einnig segir mér svo hugur um að íslenskufræðingum enn þann dag í dag sé í nöp við höfund hennar. Því til útskýringar vísa ég í formála:

Jeg var satt að segja á báðum áttum um það, hverju svara skyldi, því að eins og ástatt er nú um „íslenzk fræði“, er við marga erfiðleika að etja. Verstu erfiðleikarnir stafa ekki frá sjálfu viðfangsefninu, þó að þeir sjeu vitanlega miklir, en öllu heldur frá mönnum, sem stunda og hafa stundað þessi fræði; og fleira mætti nefna …

… En erfiðast er aðeiga við hleypidóma þá og firrur, sem tekist hefir að koma inn hjá mönnum, og telja þeim trú um að væri vísindaleg sannindi, þó að rjetta nafnið sje raunverulega: „vísindaleg ósannindi“, því að eins og kunnugt er þarf opt langt mál til þess að hrekja ósannindi, þó að þau sje e. t. v. aðeins örfá orð. En því er nú ekki að heilsa í þessu tilfelli. Orðin eru mörg …

… Jeg hefi reynt að fara eptir þeim reglum, sem menn, er nú á tímum fást við að ráða eitthvert torskilið mál, hvort heldur er í náttúrufræði eða öðrum fræðum (nema íslenzkum) temja sér. Venja þeirra er sú að athuga fyrst, hvað það sje, sem ráða þurfi – hvað það sje, sem geri málið flókið – og reyna að finna sökudólgana. Ennfremur að athuga, hvernig á þeim geti staðið; hvort þeir geri vart við sig annarsstaðar og sje algengt eða sjaldgæft fyrirbrigði o. s. frv. Að því loknu gera menn tilraunir (experiment), sem samkvæmt skynsamlegum ályktunum mætti ætla, að gæti leyst úr flækjunni. Opt þarf margra tilrauna við, en þær eru metnar, og þær eru teknar gildar, eða þeim er hafnað, eptir árangrinum, sem fengist hefir af þeim. Fáist sá árangur af þeim, að það, sem var óskiljanlegt verði skiljanlegt og í samræmi við önnur þekkt atriði málsins, þá telja menn, að þær hafi komið að liði og að gátan sje leyst. Komi tilraunirnar þessu ekki til leiðar, þá fitja menn upp á ný og gera aðrar tilraunir, eða menn gefast upp við að ráða gátuna.
Hitt, sem er siður íslenzkra fræðimanna, að gera annaðhvort engar tilraunir, eða skýra rangt frá því, sem þær hafa leitt í ljós … það þekkist hvergi, nema í „íslenzkum fræðum“.

Þessi náungi er nastí. Hann hefur vonandi gert sér grein fyrir því að með þessu dissaði hann ekki ómerkari menn en Finn Jónsson og Sigurð Nordal! Það er varla hægt að hugsa sér meira diss, en að útskýra vísindalegar aðferðir í þaula, og halda því svo blátt áfram fram að störf heilar stéttar vísindamanna gangi í berhögg við viðurkennda aðferðafræði og þær jafnvel ljúgi vísvitandi sjálfum sér og rannsóknum sínum til framdráttar. Þetta eru stór orð. En hver er þessi E. Kjerulf?

2 thoughts on “Kjerulf ormstunga”

Lokað er á athugasemdir.