Rimman um eylandið Ísland

Líklega hef ég verið sjö ára þegar ég „vann“ mínar fyrstu deilur. Þá var ég á skóladagheimili og deilurnar snerust um hvort Ísland væri eyja eða ekki. Rök hans voru þau að Ísland héti Ísland en ekki Íseyja, auk þess að hann væri eldri en ég. Mín rök voru þau, að bróðir minn segði að Ísland væri eyja, og hann væri eldri en við báðir. Mótherji minn, sem ég man ennþá að hét Ari, sneri sér í örvæntingu til fóstrunnar og beitti hana sömu rökum og mig. Nei, það er rétt hjá Arngrími, sagði hún. Ég man hvað ég var hissa. Ég hafði aldrei haft rétt fyrir mér áður (raunar vissi ég oft meira en bróðir minn, en hann vann samt alltaf allar deilur, meðþví hann var eldri, stærri og sterkari). Líklega var það eftir þetta að ég fann fyrst fyrir þörfinni að hafa alltaf rétt fyrir mér.

Hitt var svo annað, að ég vissi vel að það er ekki alltaf góð hugmynd að vita meira en einhver sem er eldri en maður sjálfur. Svo ég var ekki lengi að yfirgefa svæðið, skynjandi hvernig andrúmsloft var að myndast inni á dagheimili. Hann réðist raunar ekki á mig. Það hefði verið út í hött. Í þá daga fannst mér þó ekki sjálfsagðari hlutur í heiminum en þeir eldri lumbruðu á þeim yngri eftir hentisemi.

2 thoughts on “Rimman um eylandið Ísland”

  1. Hehemm, þú hefur aldrei vitað meira en ég. Ég vil líka minna þig á að ég er ennþá eldri, stærri og sterkari en þú, þannig að þú munt aldrei vinna neinar deilur við mig.

Lokað er á athugasemdir.