Haldið á vit æfintýranna

Ég ætla að fara að sanka að mér ljóðabókum, helst nýlegum, þó nokkrum klassískum í bland – í von um að víkka sjóndeildarhringinn. Á eftir ætla ég að kaupa minnst eina eftir Eirík Örn Norðdahl og Árna Larsson og ef ég finn bókina hans Jóhanns Gunnars Sigurðssonar ætla ég að kaupa hana líka. Einnig væri fróðlegt að glugga í Ljóðmæli Hallgríms Helgasonar. Ef spakir lesendur Bv muna eftir einhverjum sérstaklega góðum eða herfilegum ljóðskáldum er uppálagt að þeir skilji ábendingar eftir í athugasemdakerfinu. Þá hef ég það bakvið eyrað fyrir næsta túr.

Bókmenntir handan bókmennta

Finnst engum fáránlegt hvaða stefnu bókmenntir hafa verið að taka? Hvenær hættir bókin að vera eftir þig heldur einhvern allt annan? Er það þegar aðrir eru farnir að skrifa hana fyrir þig eða átt þú ennþá heiðurinn fyrir að tjasla saman inboxinu þínu og gefa út á bók? Eða var það eina leiðin til að vera frumlegur, að taka hugmynd framan af eldri bókarkápu og gera alvöru úr henni, þ.e. hafa alvöru leikara (lesist leiksoppa) í bókinni – nafnkunna menn í þjóðfélaginu – sem ginntir voru til þátttöku á fölskum forsendum?
Er tími módernistanna liðinn í íslenskum bókmenntum? Er tími bókmenntanna liðinn í íslenskum bókmenntum? Er bókin orðinn miðill sem nær útfyrir eigið form; miðill sem þarf ekki höfund til að fullgera, aðeins ritstjóra? Er tími fagurbókmennta úti? Eru íslenskar bókmenntir orðnar að óstöðvandi skrímsli póstmódernísks hryllings; ventill fyrir tjáningarþörf þeirra sem ekkert hafa að segja – ekkert hafa fram að færa? Er kominn tími til að lóga þeim hruma hundi, ef það hefur þá ekki þegar verið gert? Þesslags spurningum spyr ég sjálfan mig á ofanverðri æfi hinnar íslensku skáldsögu; þessari skálmöld íslensks mikilmennskubrjálæðis.

Sauðum verður ekki sýnd linkind

Mér leiðist þegar nafnlausir þorparar iðka húmor sinn þar sem hann fellur í grýttan jarðveg, þá sér í lagi þegar ætlunin er að hann falli í grýttan jarðveg. Væri mér uppálagt að sókrateskt snúa upp á slíkt fólk, en geri það ekki. Það geri ég ekki þegar ég get einfaldlega eytt athugasemdum þess. Það jafngildir því það hafi aldrei sagt neitt.

Spurt er: Hvor er meiri tuðari, sá sem tuðar á eigin síðu eða sá sem tuðar yfir tuðinu á annarra manna síðum? Þá stórt er spurt. Svarið mun öllum hinsvegar jafnljóst, nema einmitt þeim sem gjarnir eru á að tuða yfir tuði. Því fólki er jafnframt óvelkomið að tjá sig á þessari síðu og verður öllum þeim athugasemdum eytt sem ekki að minnsta kosti jaðra á því að vera málefnalegar.

Síðasta færsla komst ekki einu sinni nálægt hinu týpíska sérhlífna jarmi yfir óréttlæti heimsins sem svo gjarnan tíðkast á bloggsíðum. Efni síðustu færslu var einfaldlega þetta, umorðað: Fáfræði er alsæla, vitneskja er hryllingur. Og sem slík kallaði færslan ekki á þau viðbrögð sem bárust við henni, enda þótt ég sé þess fullviss að hinn nafnlausi þorpari gangi alsæll í sínu fávísa algleymi um að orð hans hafi vegið þyngra en gull. Enda eru allir kóngar í sínu ríki. Og allir aðrir eru hálfvitar.