Sauðum verður ekki sýnd linkind

Mér leiðist þegar nafnlausir þorparar iðka húmor sinn þar sem hann fellur í grýttan jarðveg, þá sér í lagi þegar ætlunin er að hann falli í grýttan jarðveg. Væri mér uppálagt að sókrateskt snúa upp á slíkt fólk, en geri það ekki. Það geri ég ekki þegar ég get einfaldlega eytt athugasemdum þess. Það jafngildir því það hafi aldrei sagt neitt.

Spurt er: Hvor er meiri tuðari, sá sem tuðar á eigin síðu eða sá sem tuðar yfir tuðinu á annarra manna síðum? Þá stórt er spurt. Svarið mun öllum hinsvegar jafnljóst, nema einmitt þeim sem gjarnir eru á að tuða yfir tuði. Því fólki er jafnframt óvelkomið að tjá sig á þessari síðu og verður öllum þeim athugasemdum eytt sem ekki að minnsta kosti jaðra á því að vera málefnalegar.

Síðasta færsla komst ekki einu sinni nálægt hinu týpíska sérhlífna jarmi yfir óréttlæti heimsins sem svo gjarnan tíðkast á bloggsíðum. Efni síðustu færslu var einfaldlega þetta, umorðað: Fáfræði er alsæla, vitneskja er hryllingur. Og sem slík kallaði færslan ekki á þau viðbrögð sem bárust við henni, enda þótt ég sé þess fullviss að hinn nafnlausi þorpari gangi alsæll í sínu fávísa algleymi um að orð hans hafi vegið þyngra en gull. Enda eru allir kóngar í sínu ríki. Og allir aðrir eru hálfvitar.

6 thoughts on “Sauðum verður ekki sýnd linkind”

  1. Að því undanskildu að ég hleypi verðskuldaðri gagnrýni að, ekki: „Þegiðu auminginn þinn,“ eins og ég fékk á færsluna á undan.

  2. Vantrúarlegar athugasemdir, sama hversu málefnalegar, munu án efa ekki eiga upp á pallborðið hjá þessum mönnum. Það er ekki deilandi við menn sem telja sig eiga últímatrök.

Lokað er á athugasemdir.