Bókmenntir handan bókmennta

Finnst engum fáránlegt hvaða stefnu bókmenntir hafa verið að taka? Hvenær hættir bókin að vera eftir þig heldur einhvern allt annan? Er það þegar aðrir eru farnir að skrifa hana fyrir þig eða átt þú ennþá heiðurinn fyrir að tjasla saman inboxinu þínu og gefa út á bók? Eða var það eina leiðin til að vera frumlegur, að taka hugmynd framan af eldri bókarkápu og gera alvöru úr henni, þ.e. hafa alvöru leikara (lesist leiksoppa) í bókinni – nafnkunna menn í þjóðfélaginu – sem ginntir voru til þátttöku á fölskum forsendum?
Er tími módernistanna liðinn í íslenskum bókmenntum? Er tími bókmenntanna liðinn í íslenskum bókmenntum? Er bókin orðinn miðill sem nær útfyrir eigið form; miðill sem þarf ekki höfund til að fullgera, aðeins ritstjóra? Er tími fagurbókmennta úti? Eru íslenskar bókmenntir orðnar að óstöðvandi skrímsli póstmódernísks hryllings; ventill fyrir tjáningarþörf þeirra sem ekkert hafa að segja – ekkert hafa fram að færa? Er kominn tími til að lóga þeim hruma hundi, ef það hefur þá ekki þegar verið gert? Þesslags spurningum spyr ég sjálfan mig á ofanverðri æfi hinnar íslensku skáldsögu; þessari skálmöld íslensks mikilmennskubrjálæðis.

12 thoughts on “Bókmenntir handan bókmennta”

  1. Já, er von þó maður spyrji sig hvort þörf sé yfirleitt á fleiri skáldsögum? Þetta form er svo dómínerandi í þessu litla neyslusamfélagi að ég persónulega fer að fá fullkomið ógeð á því.

  2. Ert þú ekki að falla í þá gryfju að sameina höfundinn og bókina í einn pakka. Viðhorf höfundarins skiptir litlu máli, bókin sjálf á að vera grundvöllurinn sem hún er gagnrýnd á.
    Höfundar geta verið skemmtilegir, leiðinlegir, sjálfhverfir, montnir og ömurlegir en bækurnar þurfa ekkert að skoðast á þeim forsendum.

  3. Tilætlun höfundarins á að skipta sem minnstu máli. Túlkun lesandans skipar stærsta þáttinn.
    En rétt er það að frumlegheitin eru ekki mikil í dag. Ef það er frumlegt þá er það oft tilgerðarlegt og höfðar frekar til markaðarins heldur en lesandans.
    En við getum aldrei köttað okkur frá því sem á undan er farið. Að vera „frumlegur“ er einungis að vinna á nýstárlegan hátt með það sem áður hefur verið skrifað. Allt sem við skrifum er innan textatengsla, unnið úr öllum þeim textum sem við höfum lesið, skynjað eða heyrt. „Ekkert er utan texta“
    Þetta er bara spurning um hvernig maður höndlar endurvinnsluna. Ég rek mig sjálfur oft á það að detta niður í klisjur. En í staðinn fyrir að hopa frá, þá reynir maður að samþætta „frumlegheitin“ og klisjuna. Einnig geri ég mér grein fyrir einhverjum táknum og myndum í textanum eftir nokkra lestra á því sem ég hef skrifað. Kem auga á eitthvað sem ég hafði ekki sjálfur hugmynd um þegar ég skrifaði textann. Því þetta var jú túlkunaratriði, og færist í einhverja átt frá upphaflegu hugsuninni.
    Ég veit ekki alveg hvert ég er kominn hérna. Langaði bara að hoppa inn í umræðurnar.
    En Arngrímur, með fullri virðingu, ekki hugsa svona mikið um höfundinn við lestur á texta. Það er erfitt, ég veit það. Ég get til dæmis ekki lesið bækur eftir Stefán Mána án fordóma.

  4. „Kanna formið“, hljómar óneitanlega helvíti artífartí þegar allir eru farnir að reyna að vera „öðruvísi“, „brjóta múra formsins“. Hverjum hampað á fætur öðrum sem sem Joyce eða Kafka II. Það er svo sem gott og blessað að „brjóta hefðirnar“ og „færa út mörkin“, en þá verður alla vega að vera eitthvað innihald, e-ð bak við umbúðirnar. Annars eiga verkin á hættu að verða „Rebel without a cause“ og/eða að snúast upp í tilgerðarlegt egórúnk eins og þessi bók hljómar óneitanlega, af lýsingum að dæma.

  5. Enginn er frumlegur. Enginn byggir ekki á eldri hugmyndum. Það er eins ljóst og að páfinn kæmist aldrei til eigin himna.
    Málið er hinsvegar þetta: Bókmenntir eru hættar að snúast um lesandann. Þær snúast um að koma sjálfum sér á framfæri. Hin svokölluðu lögmál markaðarins eru fullkomlega varnarlaus og ógild, því fólk mun alltaf kaupa bækur óháð innihaldi þeirra, það kaupir einfaldlega þær bækur sem fá góða dóma. Þú lest ekki bækur áður en þú kaupir þær, þú færð þeim ekki skilað eftir að plastið hefur verið rifið utanaf þeim. Þess vegna þarf ekki að skrifa góðar bækur: Það er alltaf einhver sem kaupir þær. Og þess vegna eru fáar raunverulega góðar bækur skrifaðar núorðið.
    Tískubylgjan er í átt til þess sem ég lýsti hér að ofan og við sem ekki getum samsamað okkur því eigum að halda okkur úti í kuldanum. Þetta sætti ég mig ekki við. Ég sætti mig ekki við að gagnrýnendur ausa þá lofi sem ganga lengst í groddalegum exhibitionisma, svívirðilega lélegri persónusköpun og stílfærni sem væri ekki öpum hæfandi. Þetta sætti ég mig ekki við og þess vegna kvarta ég, þegar ég ætti raunverulega að skrifa bók.

  6. Sjálfur hef ég fengið mig fullsaddan á öllum Böddum og Fífíum ’68-kynslóðarinnar, sjálfshælni póstmódernistanna (því það er ekki til meiri sjálfshælni en að gefa út innihaldslausa bók) og sinnuleysi til að bregðast við þróuninni. Þróum þetta lengra, segja þeir. Hey, ég fékk hugmynd: Hvernig væri að næsta bók hefði sextíu kafla og sex útgáfur af hverjum kafla, svo gætirðu hent teningi til að velja kaflana af handahófi og þannig fengið 46656000000 mismunandi leiðir til að lesa bókina! Því það er snilldin, að ganga eins langt og þú getur til að gera bókina óaðlaðandi í tilgerð sinni.
    Ég hef samt ekkert á móti skáldsögum. Svo lengi sem þær segja mér eitthvað.

  7. Ef til vill kauðalega orðað hjá mér. Merkingin verandi: Ástæða þess að margir skrifa bækur er til þess að þeir verði frægir og geti þóst merkilegir, ekki vegna þess þeir hafi neitt að segja. Metnaðurinn liggur til bókaútgáfu, ekki til bókaskrifa. Bækurnar snúast um sjálfar sig, ekki um innihaldið. Höfundar snúast um sjálfa sig, ekki bækur sínar, þótt þeir kannski telji þær upp á mannamótum til að virðast merkilegir. Þetta á ekki við alla höfunda, og á ekki endilega við Kristjón Kormák, en það á við allt of marga höfunda og ef nokkru sinni var þörf á hugarfarsbreytingu þá er það núna.

  8. Ekki svo að skilja að ég skilji ekki hvað Kristjón Kormákur er að gera. Hann er að kanna mörk skáldskaparins, hvar hann endar og raunveruleikinn byrjar, hvað gerist þegar skáldskapurinn hermir eftir lífi (eða er það raunveruleikinn sem hermir eftir skáldskapnum?).
    Það er allt gott og gilt en menn hljóta að spyrja sig í hvaða tilgangi það er gert og hvers vegna þessi eða hin aðferðin var valin. Svo má maður spyrja sig í beinu framhaldi hvort skáldskapurinn líði ekki fyrir umgjörðina, fyrir tilraunastarfsemi sem virðist enn sem komið er ekki hafa tilgang.
    Kannski finnst tilgangurinn, hver veit? Til þess er tilraunastarfsemi. En þegar bróðurpartur skáldskaparmarkaðarins er undirlagður af einni stefnu, þá er tími til kominn að finna nýjar leiðir.

  9. Bækur eru margar hverjar orðnar þannig, að þær eru framlenging á einhverri hugsun höfundarins, sem er ókláruð og órökleg án samhengis við upphaflegu hugsunina. Þetta finnst mér þegar ég les bækur síðustu ára. Þannig er oft og tíðum eins og upphaflegur tilgangur gleymist.
    Vissulega eiga bækur að standa einar og sér. En ég vil helst ekki viðra skoðanir mínar á sumum nútíðarbókmenntum ef ég á að miða við að bókin sé sérstæð en ekki hliðstæð. Ég er hræddur um að ég myndi sprengja tilfinningarakaskalann.
    Þess vegna reyni ég að skoða bókmenntirnar útfrá samtíð sinni, útfrá höfundum þeirra og mögulegum meiningum höfundanna, svo mér hætti síður til að gjörsamlega hatast út í bókina vegna þess hún var ekki sniðin að smekk mínum.

  10. Já, allt eru þetta valid punktar sem komið hafa fram. Bækur finnst mér ekki lengur standa utan höfunda sinna, en það er kannski bara ég. Ég á enda erfitt með að lesa nýlegar bækur án fordóma fyrir höfundum þeirra. Ég þarf bara að halda áfram að reyna að víkka sjóndeildarhringinn.

Lokað er á athugasemdir.