Haustdraumur á Krít

Í nótt dreymdi mig að ég hefði farið til Krítar. Þar stóðum við nokkur á svölunum á íbúðinni okkar og ríghéldum okkur í rimlahandriðið svo við myndum ekki fjúka út í buskann í fellibylnum sem þar gekk yfir. Eldingar sprungu á hafinu í fjarska. „Já, það er sama veðrið á Krít og á Íslandi,“ hrópaði ég viturlega gegnum storminn. „Munurinn liggur helst í því að á sumrin er öllu heitara á Krít, en á Íslandi breytist það ekkert.“ Það mun hafa verið haust á Krít í þeim draumi.

Svo vaknaði ég við að vindurinn gekk í bylgjum inn gluggann hjá mér í samfloti við rigninguna. Nei, hver djöfullinn! Ég lokaði glugganum. Það gagnast manni lítið að ferðast þegar það er sama djöfuls veðrið alstaðar í heiminum.