Í gærkvöldi stóðum við Kári og Dóri fyrir ljóðaupplestri á Café Babalú á Skólavörðustíg. Það verður ekki annað sagt en það hafi lukkast ágætlega, uppátækið kom gestunum skemmtilega á óvart, en viðburðurinn hafði ekki verið auglýstur sérstaklega. Ég er eiginlega ánægður með að hafa riðið á vaðið, því bæði Kári og Dóri voru svo góðir að ég hefði ekki viljað fara á eftir þeim. Þaraðauki veittu ljóðin þeirra mér nýja sýn á málin og veittu mér margar nýjar hugmyndir. Það er ekkert hollara skáldaspíru en að heyra og lesa annarra verk. Það er forsenda þess að hann þroskist útyfir bernsubrekið. Meira af þessu!
Ljóð dagsins er eftir Dóra, án hans leyfis, með von um að það verði ekki tekið óstinnt upp:
Von
Í hvert sinn sem ég sé þig
þá líður mér
eins og þegar ég sé
lögreglubíl í baksýnisspeglinum.
Jafnvel þótt engin hætta sé á ferð
þá tekur hjartað kipp
því það er alltaf möguleiki
á að eitthvað gerist.
– Halldór Marteinsson
Svona nú Vídalín, enga uppgerðarhógværð. hehe.
Mér fannst þú góður.
Ég þakka heiðurinn og þakka líka fyrir síðast. Ég skemmti mér mjög vel og fannst við allir bestir 😉 Það er líka satt sem þú segir að það er öllum hollt að kynna sér verk annarra og önnur skáld, hjálpar líka til hvað innblástur varðar. Vona að þetta verði endurtekið sem fyrst.
Engin uppgerð, mér fannst þið betri en ég.
Undir nýjum innblæstri: http://forumpoeticum.blogspot.com/2005/12/nttrustemning.html
Takk 🙂 Ég vona þið hafið skemmt ykkur bærilega.
Mér skilst okkur sé velkomið að endurtaka leikinn hvenær sem er.
Okkur hefur einnig borist boð, raunar fyrir nokkru, um að lesa upp í MS. Boð sem ég tel við ættum að þiggja sem fyrst.