Góð fyrirmynd

Ég mun aldrei, aldrei, aldrei taka þá afsökun gilda, að Bond sé hafður reyklaus í nýju myndunum til þess að sýna gott fordæmi. Þeir myndu sýna betra fordæmi með að beinlínis auglýsa lækningarmátt tóbaks, en að framleiða kvikmyndir um kaldrifjaðan kvenfyrirlítandi alkóhólistamorðingja, sem vinnur við að berjast við Þjóðverja og Rússa, vegna þess hve átakanlega vondir þeir eru í eðli sínu. Og hvernig dettur sama leikstjóra í hug, að vilja heldur kvikmynda atriði þar sem Bond er pyntaður þannig, að illmennin „berja kynfæri hans með teppabankara“. Er einhver kvóti sem honum er úthlutað? Já, veistu, við skulum sleppa reykingunum, því annars nær kvótinn ekki yfir teppabankaraatriðið. Því miður, en það er annaðhvort eða, gott fólk! Ekki megum við sleppa þessu geysimikilvæga atriði!

Nei, það á ekki að afsaka reykleysi Bonds. Ef þeir vilja ekki að hann reyki, þá reykir hann ekki. Það er nú ekki flóknara. Aukinheldur þykir þetta ekki beinlínis róttæk breyting á persónu hans, þar sem hann hefur ekki reykt guðmávitahversulengi, jafnvel ekki síðan á níunda áratugnum.

One thought on “Góð fyrirmynd”

Lokað er á athugasemdir.