Gamlárskvöld

Utan sprengingarnar sem hafa varað nú í nokkra daga líður mér ekki eins og það sé komið gamlárskvöld. Áramótin hafa hingað til alltaf verið mjög áþreifanleg fyrir mér sem tímamót, endir hins gamla og upphaf einhvers enn betra, eða það hefur mér í það minnsta fundist. Nú finnst mér dagurinn hafa verið svo óræður, svo sjálfum sér og öðrum dögum líkur, að ég er ekki enn kominn í neinn áramótafíling. En það kemur. Það er ekki annað hægt á miðnætti, þegar líkast er ragnarökum að sjá yfir borgina.