Tilvitnun dagsins

Er úr Sumarljósi og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman Stefánsson.

„ … en við segjum stundum við gamla manninn: láttu nú hendurnar standa fram úr ermum, eða: þér eru aldeilis mislagðar hendur í dag! Þetta finnst okkur fyndið og honum stundum líka, en þó ekki alltaf.“

Skömmu áður í bókinni kemur fram að maðurinn sem um ræðir missti hægri höndina í heyblásara.
Ég er annars hálfnaður með bókina, þykist geta mælt með henni við suma, þó ekki aðra. Eflaust munu ekki allir kunna að meta stílinn.
Það er oft einkenni á nýlegri bókum að þær detta niður í miðjunni og missa eilítið dampinn. Besti hluti Sumarljóss finnst mér einmitt vera sá fyrsti af þeim þremur og hálfa sem ég hef lesið. Vona að hún nái sér aftur upp. Eiginlega hlýtur hún að gera það, það er úr svo miklu að moða.